Rúnar hættur hjá KR

Rúnar Kristinsson hefur verið afar sigursæll með KR síðan hann …
Rúnar Kristinsson hefur verið afar sigursæll með KR síðan hann tók við liðinu sumarið 2010 - orðið bikarmeistari þrisvar og Íslandsmeistari tvisvar. mbl.is/Golli

Rúnar Kristinsson er hættur sem þjálfari KR. Var þetta fullyrt í fréttatíma Stöðvar 2 í kvöld og haft eftir Kristni Kjærnested, formanni knattspyrnudeildar KR. 

Rúnar hefur undanfarið verið orðaður sterklega við þjálfarastarfið hjá Lilleström í Noregi þar sem hann lék á sínum tíma við mjög góðan orðstír. 

Í fréttum Stöðvar 2 kom einnig fram að KR myndi kynna nýjan þjálfara á blaðamannafundi á þriðjudaginn en fjölmiðlum hefur ekki verið send tilkynning um það enn sem komið er. 

Næsta víst, eins og Bjarni Felixson orðaði það svo oft hér um árið, er að Bjarni Guðjónsson verði eftirmaður Rúnars hjá KR en Bjarni hætti á dögunum sem þjálfari Fram. Hann hefur verið duglegur síðustu dagana að ræða við leikmenn KR-liðsins en Bjarni var sem kunnugt er leikmaður og fyrirliði vesturbæjarliðsins áður en hann lagði skóna á hilluna.

Uppfært kl 19:14

Jónas Kristinsson, framkvæmdastjóri KR, hefur sent út fréttatilkynningu fyrir hönd félagsins:

Rúnar Kristinsson hefur látið af störfum sem þjálfari meistaraflokks KR. Þar með skilja leiðir KR og Rúnars að sinni en tilkynnt verður um eftirmann hans eftir helgi.

Rúnar lék með sigursælum yngri flokkum KR og síðan meistaraflokki félagsins á árunum 1986 til 1994. Næstu 13 ár lék hann erlendis en kom til KR að nýju árið 2007.

Rúnar lék með Örgryte í Svíþjóð frá 1995 til 1997, Lilleström í Noregi frá 1997 til 2000 og Lokeren í Belgíu frá 2000 til 2007.

Rúnar lék 225 leiki fyrir meistaraflokk KR og skoraði 40 mörk. Hann lék alls 463 leiki í efstu deild í fjórum löndum

Hann var ráðinn yfirmaður knattspyrnumála hjá KR árið 2007 og tók við þjálfun meistaraflokks á miðju sumri 2010. Framhaldið var afar farsæll kafli í sögu KR, Íslandsmeistaratitlar árin 2011 og 2013 og bikarmeistaratitlar árin 2011, 2012 og 2014.

KR lék 197 leiki undir stjórn Rúnars, sigraði í 127 þeirra, gerði 26 jafntefli en tapaði 44. Markatalan er 432-244 KR í hag.

KR óskar Rúnari velfarnaðar í hverju því sem hann tekur sér fyrir hendur og þakkar af alúð fyrir afar ánægjulegt og farsælt samstarf. KR á vonandi eftir að njóta aftur starfskrafta hans í framtíðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert