Þekki ekki fallbaráttu og ætla mér ekki að kynnast henni

Ólafur Páll Snorrason
Ólafur Páll Snorrason mbl.is/Styrmir Kári

„Vonandi er koma mín upphafið að einhverju meira. Ég vona að ég geti laðað fleiri leikmenn að klúbbnum og ýtt kannski aðeins undir metnaðinn hjá þeim sem fyrir eru. Ég er ekki að bíða eftir því að Fjölnir falli eða lendi í einhverju „ströggli“ á næsta ári. Ég þekki það ekki sem leikmaður og ætla ekki að kynnast því á næstu árum,“ sagði Ólafur Páll Snorrason við Morgunblaðið á fréttamannafundi í Egilshöll í gær.

Eftir sex tímabil hjá FH skrifaði Ólafur Páll undir samning sem spilandi aðstoðarþjálfari síns uppeldisfélags, Fjölnis, í gær. Um gríðarlegan liðsstyrk er að ræða fyrir Grafarvogsliðið sem bjargaði sér frá falli úr Pepsi-deildinni í lokaumferðinni nú í haust.

„Ég hef alltaf haft áhuga á að fara í þjálfun en hafði svo sem ekki gert það upp við mig hvort ég myndi gera það. En ég hafði fyrir löngu ákveðið að klára minn fótboltaferil hjá Fjölni og það mun ég gera úr þessu. Þarna sé ég ákveðna leið til að koma inn sem þjálfari og sjá hvort það eigi við mig, og hjálpa Gústa [Ágústi Gylfasyni, þjálfara] og stjórninni í þessari uppbyggingu sem hér á sér stað. Það getur vel verið að þetta eigi ekki við mig og þá held ég bara áfram sem leikmaður hjá Fjölni, en ég hef mikla trú á mér í þessu starfi. Ég hef mikið til brunns að bera í uppbyggingu starfsins hjá Fjölni og er mjög spenntur fyrir því sem koma skal,“ sagði Ólafur, sem segir vissulega erfitt að kveðja FH-liðið:

„Þetta tók kannski ekki langan tíma en það fylgdu því nokkrar andvökunætur að taka þessa ákvörðun. Það er erfitt að yfirgefa FH þar sem ég átti frábæran tíma, hafði unnið mikið af titlum og eignast góða vini. Ég þakka öllum þar fyrir tímann í Krikanum.“ sindris@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert