„Eru mín stærstu mistök“

Guðjón Þórðarson.
Guðjón Þórðarson. mbl.is/Ómar

Jónas Þórhallsson segir í viðtali við Víkurfréttir að það séu hans hans stærstu mistök að hafa ráðið Guðjón Þórðarson sem þjálfara en hæstiréttur staðfesti úrskurð Héraðsdóms Reykjaness í gær og dæmdi að knattspyrnudeild Grindavíkur skuli greiða Guðjóni Þórðarsyni 8,4 milljónir króna í skaðabætur fyrir vangoldin laun.

„Ég vildi ráða hann 1999 þá fór hann til Stoke. Árið 2005 sveik hann okkur og fór til Keflavíkur, þá fékk ég slæma mynd af honum. Þegar við svo loks réðum hann þá var ég á leiðinni að ráða Heimi Hallgrímsson. Þá var mér var tjáð að Guðjón vildi koma til Grindavíkur. Það var búið að benda mér á ýmsa galla hjá manninum en hann hafði árangur í farteskinu. Ég hafði samt trú á að hann gæti gert góða hluti hér og fór með það inn á borð til stjórnarinnar og þar var það samþykkt,“ segir Jónas í viðtali við Víkurfréttir.

„Ég ber fulla ábyrgð á þessu og ætla ekki að benda á einn eða neinn. Þetta eru mín stærstu mistök og ég reyni ekki að koma þeim á einn eða neinn. Ég ber ekki kala til eins né neins.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert