Kristján er hættur

Kristján Örn Sigurðsson lék 53 A-landsleiki á sínum ferli.
Kristján Örn Sigurðsson lék 53 A-landsleiki á sínum ferli. mbl.is/Kristinn

Kristján Örn Sigurðsson, fyrrverandi landsliðsmaður í knattspyrnu, hefur ákveðið að leggja skóna á hilluna en hann hefur leikið með Hönefoss í Noregi undanfarin ár.

Þetta staðfesti Kristján í samtali við Ringerikes Blad. Hann segist vera að hefja störf sem endurskoðandi hjá Veiby ökonomi, samhliða háskólanámi, og það hafi verið of gott tækifæri til að hafna. Hann verði jú ekki knattspyrnumaður allt sitt líf.

Kristján, sem er 34 ára gamall, á að baki 53 A-landsleiki fyrir Ísland og skoraði í þeim 4 mörk. Hann lék sinn síðasta landsleik í október 2011, í 5:3-tapi gegn Portúgal í undankeppni EM. Fyrsti A-landsleikur hans var vináttulandsleikur gegn Mexíkó í nóvember 2003.

Kristján er uppalinn hjá Þór en lék í meistaraflokki með Völsungi, KA og KR hér heima. Hann var á mála hjá Stoke í Englandi árin 1997-2001 og hélt aftur í atvinnumennsku árið 2005 þegar hann samdi við Brann í Noregi. Hann varð norskur meistari með Brann árið 2007. Kristján lék með Hönefoss frá árinu 2010.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert