Dagný fer til Þýskalands

Dagný Brynjarsdóttir.
Dagný Brynjarsdóttir. Ljósmynd/KSÍ

Dagný Brynjarsdóttir, landsliðskona í knattspyrnu, er á leið til Þýskalands og skrifar undir samning við félag í 1. deild, efstu deildinni þar í landi, á næstu dögum. Þetta staðfesti hún við Vísi í dag en sagði að samkvæmt ósk félagsins gæti hún ekki skýrt frá því hvert hún væri að fara.

Dagný lauk námi við Florida State háskólann í Bandaríkjunum fyrir jól og varð bandarískur háskólameistari með liðinu skömmu áður. Hún er í hópi þriggja stúlkna sem eru tilnefndar sem bestu leikmenn deildarinnar.

Dagný er 23 ára gömul og hefur verið í stóru hlutverki í íslenska landsliðinu síðustu árin. Hún skoraði sigurmarkið þegar Ísland vann Holland, 1:0, í Evrópukeppninni í Svíþjóð 2013 og tryggði sér með því sæti í átta liða úrslitum. Hún var síðan önnur tveggja markahæstu leikmanna landsliðsins á árinu 2014 með 7 mörk í 12 landsleikjum. Dagný gekk til liðs við Selfoss frá Val fyrir siðasta tímabil og átti drjúgan þátt í óvæntri velgengni Selfossliðsins í Pepsi-deildinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert