Pottþétt að ég spila á næsta tímabili

Eiður Smári Guðjohnsen í Astana í dag.
Eiður Smári Guðjohnsen í Astana í dag. mbl.is/Víðir Sigurðsson

Eiður Smári Guðjohnsen mun halda áfram í fótboltanum að loknu þessu tímabili með Bolton Wanderers í ensku B-deildinni, og lang líklegast er að það  verði með Bolton. Þetta staðfesti Eiður við mbl.is í Astana í dag, en þar er hann með íslenska landsliðinu sem mætir Kasakstan á laugardaginn í undankeppni Evrópumótsins.

Neil Lennon, knattspyrnustjóri Bolton, sagði á dögunum að hann vildi semja við Eið að nýju, en Eiður hóf að spila með liðinu í desember og samdi út þetta tímabil.

„Það er ekkert komið á hreint í þessu ennþá, aðeins búið að tala um áframhald en ekki meira. Við ræddum í fyrsta skipti alvarlega áður en ég kom hingað til Kasakstan. Ég tek undir það sem Lennon segir, þetta er allt mjög jákvætt og við sjáum hvernig þetta þróast. Við klárum tímabilið eins vel og við getum og þá er hægt að leggja grunninn að því næsta.

En ég spila áfram fótbolta á næsta keppnistímabili, það er alveg pottþétt, og það eru mestar líkur á að ég endursemji við Bolton," sagði Eiður við mbl.is.

Ítarlegt viðtal við Eið Smára verður í íþróttablaði Morgunblaðsins á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert