Verð þá bara aumur eftir leikinn

Gylfi Þór Sigurðsson eftir sigurinn á Hollendingum í haust, 2:0, …
Gylfi Þór Sigurðsson eftir sigurinn á Hollendingum í haust, 2:0, þar sem hann skoraði bæði mörkin. mbl.is/Golli

Gylfi Þór Sigurðsson hefur eytt meiri tíma hjá sjúkraþjálfara en á æfingum með Swansea City á undanförnum mánuðum. En hann kveðst vera klár í slaginn með íslenska landsliðinu í knattspyrnu gegn Kasakstan í Astana á laugardaginn.

„Já, ég er búinn að vera með verk í fætinum, eiginlega alveg síðan í desember. Ég er búinn að fara í nokkrar myndatökur en það kemur eiginlega ekkert út úr þeim. Verkurinn er alltaf til staðar. En ég held að með skynsemi og réttri meðhöndlun, og svo góðri hvíld í sumar, ætti ég að losna við þetta,“ sagði Gylfi þegar mbl.is spjallaði við hann á hóteli landsliðsins í Astana í dag.

Æfði bara tvisvar í viku

„Ég hef náð að æfa meira en áður upp á síðkastið en frá í desember og fram undir það æfði ég bara tvo daga í viku, fimmtudaga og föstudaga, og spilaði svo á laugardeginum. Eftir það tók við meðhöndlun hjá sjúkraþjálfara til næsta fimmtudags. En núna er ég farinn að gera aðeins meira. Svo þegar ég breytti til, kom hingað til Astana og fór að æfa á gervigrasinu fór ég að finna aðeins fyrir þessum verk aftur. Það er smá mismunur á þessu,“ sagði Gylfi en var fljótur að eyða efasemdum um að hann gæti ekki beitt sér að fullu í leiknum við Kasakstan.

„Jú, jú, ég er alveg klár í leikinn á laugardaginn og spila 90 mínútur ef með þarf. Ég verð þá aumur eftir leikinn, og það er bara allt í lagi!“ sagði Gylfi.

Getum sett pressu á Tékkana

Hann er að vonum sáttur við stöðu íslenska liðsins sem er með níu stig eftir fyrstu fjóra leiki sína í undankeppni Evrópumótsins.

„Já, staðan er mjög fín. Við getum sagt að við eigum að vinna Kasakstan en það er ekkert auðvelt að koma hingað og taka þrjú stig. Ef við náum þremur stigum núna, þá setjum við kannski smá pressu á Tékkana sem mæta Lettum seinna um kvöldið. Það væri gott að geta sett pressu á þá núna, og svo eigum við heimaleikinn fyrir höndum gegn þeim í júní. Það er því mikilvægt að taka þrjú sig hérna í Astana og þá værum við aftur komnir í toppslag gegn Tékkum í júní, eins og þegar við ættum þeim síðast.“

Gæti orðið svipað og í Lettlandi

Þó Ísland hafi aldrei mætt Kasakstan áður þekkja Gylfi og félagar vel til liðsins og leikmanna þess.

„Við erum búnir að skoða lið Kasakanna vel og eigum eftir að gera það enn betur í dag og á morgun. Þeir verða eflaust mjög varnarsinnaðir og leikurinn gæti orðið svipaður og í Lettlandi þar sem það tók okkur langan tíma og mikla þolinmæði að brjóta andstæðingana niður. Á því sem ég hef sé eru þeir mjög þéttir í sínum varnarleik og verjast mikið í gegnum miðjuna, en vonandi fáum við þá eitthvert pláss á köntunum í staðinn. Það tók Hollendinga 70 mínútur að skora hjá þeim á heimavelli, Kasakarnir verjast á mörgum mönnum, en ef við getum brotið þá niður snemma með smá heppni, þá opnast leikurinn og þetta verður auðveldara,“ sagði Gylfi.

Hafa reynt að koma á óvart í byrjun

Hann sagði að það væri þó ekki endilega víst að Kasakar myndu liggja í vörn frá fyrstu mínútu. „Nei, það er ekkert öruggt. Við höfum séð að í nokkrum heimaleikjum hafa þeir reynt að pressa mótherjana talsvert fyrstu 10-15 mínúturnar, reynt að koma þeim á óvart og nýta sér að þau séu ekkert sérstaklega vön því að spila á gervigrasi. Við megum því alveg búast við því að þeir komi framar á völlinn í byrjun og reyni að setja pressu á okkur, og leggjast svo til baka þegar líður á leikinn.

Þetta væri alveg ágætt og gæti opnað leikinn frekar. Fyrir okkur væri það draumur að skora snemma. Ef okkur tækist það á fyrstu 10-15 mínútunum myndi það algjörlega breyta þeirra leik, þeir yrðu að opna leikinn og sækja, og þá gæti myndast pláss í kringum vörnina þeirra sem við gætum nýtt okkur,“ sagði Gylfi.

Erum í fínum málum í heildina

Hann kvaðst nokkuð ánægður með stöðu Swansea City í efri hluta ensku úrvalsdeildarinnar. „Við erum í ágætri stöðu, kannski einum til tveimur sætum frá þeim stað þar sem við myndum vilja vera. Í nokkrum leikjum töpuðum við stigum sem við teljum að við hefðum átt að ná, og þá værum við aðeins ofar, en í heildina séð erum við í fínum málum.

Það er talsverður peningamunur á fyrstu fjórum til sex liðunum, og svo hinum í deildinni, enda eru þau 5-10 stigum fyrir ofan næstu lið á eftir. Ég held að við séum bara að gera það fínt, miðað við okkar stöðu,“ sagði Gylfi Þór Sigurðsson í Astana í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert