Dregur kuldinn úr aðsókninni?

Sárafátt fólk sést á götum úti í Astana í dag …
Sárafátt fólk sést á götum úti í Astana í dag vegna kuldans. mbl.is/Víðir Sigurðsson

Í Astana, höfuðborg Kasakstan, óttast forráðamenn kasaska landsliðsins nú að kuldinn sem nú er í borginni komi til með að hafa áhrif á aðsókn á leik Kasakstans og Íslands í undankeppni Evrópumótsins í knattspyrnu í kvöld, en hann hefst klukkan 21 að  staðartíma, 15 að íslenskum tíma.

Í gær var hiti um frostmark í Astana, slydda og bjart til skiptis, en í dag er komið allt annað veðurfar. Frostið núna um miðjan dag er komið í 10 gráður og fer vaxandi eftir því sem sól lækkar á lofti en það á að vera um 15 gráður þegar leikurinn hefst.

Að sjálfsögðu fer leikurinn fram á yfirbyggðum leikvangi, Astana Arena, þar sem hitinn er 15 stig en menn óttast að fólk muni síður treysta sér til að ferðast til og frá honum og sitji frekar heima í kvöld.

Marlene Beysebaev, sem er formaður stuðningsklúbbs kasaska landsliðsins, hvetur borgarbúa til að láta ekki kuldann á sig fá og mæta til að styðja sína þjóð.

„Hvað er tíu til fimmtán stiga frost í Astana. Það er bara eðlilegt í þessari borg um þetta leyti árs. Haldið þið að íbúar Astana neiti sér um að fara á kaffihús, í bíó eða að heimsækja vini í þessu veðri? Það geri ég ekki sjálf, og ég er viss um að sannir stuðningsmenn láta þetta ekki aftra sér frá því að styðja sína þjóð í þessum mikilvæga leik. Borgin hefur líka komið til móts við Knattspyrnusambandið með því að vera með góðar almenningssamgöngur til og frá vellinum, fyrir og eftir leik. Völlurinn er sjálfur upphitaður og verður heitasti staðurinn í borginni í kvöld!" sagði Beysebaev í viðtali við netmiðilinn sports.kz í dag.

Vangaveltur um mögulega aðsókn á leikinn í kvöld hafa verið af ýmsum toga. Knattspyrnusambandið á von á 10  til 12 þúsund manns en fjölmiðlamenn hafa verið bjartsýnni og gerðu ráð fyrir að 15-20 þúsund myndu mæta. Leikvangurinn rúmar um 30 þúsund manns.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert