Ég rakst á einhvern vegg

Ari Freyr Skúlason
Ari Freyr Skúlason mbl.is/Ómar

Ari Freyr Skúlason, vinstri bakvörður íslenska landsliðsins í knattspyrnu, kvaðst hafa lent í talsverðum vandræðum um miðjan seinni hálfleik gegn Kasakstan í Astana í dag en þetta hefði allt sloppið og 3:0 sigur og stigin þrjú væri það sem máli skiptir.

„Við erum búnir að halda hreinu í fjórum af fimm leikjum og það er gott, en við vorum svolítið heppnir í dag. Boltinn fór í stöngina, svo bjargaði Kári með hausnum á línunni. Þeir bombuðu talsvert uppá kantinn minn, settu 2-3 menn þangað og ég átti í dálitlum erfiðleikum með það á tímabili.

Það kom þarna nýr og snöggur maður inn sem var fljótari en ég, og ég sjálfur rakst á einhvern vegg þarna eftir 65 mínútna leik. En við leystum þetta vel og kláruðum þetta endanlega þegar Birkir setti hann inn. Þetta voru þrjú stig og það er það eina sem skiptir máli," sagði Ari Freyr við mbl.is eftir leikinn. Ulan Konysbayev kom inná hjá Kasökunum og gerði dálítinn usla um tíma á kantinum hjá Ara.

„Það var gífurlega dýrmætt að skora snemma eins og við gerðum. Kasakarnir spiluðu góðan fótbolta en sköpuðu sér, þannig séð, ekki mikið af færum, nema úr föstum leikatriðum. En það sást alveg hvað það var mikilvægt að skora þetta mark, og svo annað sem drap þá um tíma. Þeir fengu svo meiri kjark en svo kom þetta þriðja mark í lokin og kláraði þá alveg," sagði Ari.

Samherjar hans í landsliðinu töluðu allir strax um leikinn við Tékka í júní en Ari vildi frekar taka hlutina í réttri röð.

„Já, þetta verður flottur leikur í júní, en við ætlum fyrst að eiga góðan leik á móti Eistum á þriðjudaginn og klára þessa ferð með stæl," sagði Ari Freyr Skúlason.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert