Getum ekki farið sáttari heim

Gylfi Þór Sigurðsson
Gylfi Þór Sigurðsson mbl.is/Golli

Gylfi Þór Sigurðsson, sem lagði upp annað mark Íslands í 3:0 sigrinum á Kasökum í undankeppni EM í knattspyrnu í Astana í dag, var ánægður með heildar frammistöðu liðsins í leiknum.

„Þetta var mjög gott, við héldum hreinu og skoruðum þrjú mörk. Ég held að við getum ekki farið heim sáttari en þetta. Við lögðum upp með að skora snemma og það gekk eftir, og það var fínt að hafa svo náð öðru markinu fljótlega eftir það. Það gaf okkur svigrúm til að halda boltanum í öftustu línu og opna þá betur og gerði okkur auðveldara fyrir með að sækja," sagði Gylfi við mbl.is eftir leikinn í Astana.

En duttuð þið ekki of mikið niður í seinni hálfleiknum?

„Ég held að við höfum verið nokkuð skynsamir að spila þetta svona eins og við gerðum. Ef við hefðum farið að sækja of mikið, hefðu svæði opnast fyrir aftan okkur. Ég held að við höfum gert þetta vel. Þeir sköpuðu sér ekki mikið af færum, aðallega eftir horn og aukaspyrnur, skallinn í stöngina var hættulegur og darraðardansinn eftir það. En fyrir utan það var þetta mjög fagmannlega gert.

Hvernig er fóturinn eftir 90 mínútur á gervigrasi?

„Ekki góður, ég er að drepast núna, en það er bara svoleiðis og það sem skipti öllu máli var að vinna núna. Ég hef eina viku fram að næsta leik í úrvalsdeildinni og get vonandi gert mig kláran fyrir það. Ég held að ég byrji núna strax þegar við komum upp á hótel, að fá smá meðferð hjá sjúkraþjálfaranum. Þetta er búið að vera venja hjá mér síðustu mánuði.

Svo eru það Tékkarnir í júní, hörkuslagur þar framundan.

„Já, það var gott að setja smá pressu á þá með þessum sigri, og þeir eru örugglega að fylgjast með okkar úrslitum. Vonandi misstíga þeir sig gegn Lettunum núna á eftir. En við eigum hörkuleik framundan gegn þeim á Laugardalsvellinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert