Aron og Eiður heim - hinir til Tallinn

Daurenbek Tazhimbetov og Birkir Már Sævarsson eigast við í leiknum …
Daurenbek Tazhimbetov og Birkir Már Sævarsson eigast við í leiknum í Astana í gær. AFP

Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu æfði á Astana Arena í morgun, á leikvanginum glæsilega þar sem það vann sannfærandi sigur á heimamönnum í Kasakstan í gær, 3:0.

Strákarnir fengu þær fréttir í morgunsárið að Holland og Tyrkland hefðu gert jafntefli um nóttina, að þeirra tíma, og þeir væru komnir með fimm stiga forskot í öðru sæti riðilsins á bronslið HM. Og að sjálfsögðu bara stigi á eftir Tékkum sem náðu naumlega jafntefli gegn Lettum.

Tékkland er sem sagt með 13 stig, Ísland 12, Holland 7, Tyrkland 5, Lettland 3 og Kasakstan eitt stig þegar undankeppnin er hálfnuð, fimm umferðir búnar af tíu.

Fljúga til Frankfurt á eftir

Síðdegis í dag, klukkan 10 að íslenskum tíma en 16 að staðartíma, flýgur íslenska liðið til Frankfurt og þaðan til Tallinn í Eistlandi í fyrramálið, en þar verður vináttulandsleikur gegn heimamönnum á þriðjudagskvöldið.

Ekki fer þó allur hópurinn til Tallinn. Aron Einar Gunnarsson heldur heim til Cardiff, enda nýorðinn faðir og fór auk þess veikur af velli eftir rúmar 70 mínútur í Astana í gær. Eiður Smári Guðjohnsen er líka á heimleið en hann og eiginkona hans eiga von á barni á hverri stundu.

Gjörbreytt lið sem spilar í Tallinn

Væntanlega stilla Lars Lagerbäck og Heimir Hallgrímsson upp gjörbreyttu liði í Tallinn, enda er sá leikur upplagður til að koma þeim sem spiluðu lítið eða ekkert í gær í gegnum rútínu landsliðsins í alvöruleik.

Liðið verður væntanlega ekki ósvipað þessu: Ögmundur Kristinsson - Haukur Heiðar Hauksson, Hallgrímur Jónasson, Jón Guðni Fjóluson, Hörður Björgvin Magnússon - Rúrik Gíslason, Guðlaugur Victor Pálsson, Emil Hallfreðsson, Jón Daði Böðvarsson - Alfreð Finnbogason, Viðar Örn Kjartansson. Og þá er enn eftir Ingvar Jónsson markvörður.

Afar ólíklegt er að Gylfi Þór Sigurðsson spili í Tallinn en eins og kom fram í viðtali við hann hér á mbl.is í gær er hann nokkra daga að jafna sig í fæti eftir hvern leik og var slæmur eftir 90 mínútur á gervigrasinu í Astana.

Óstaðfest með nýja menn

Haft var eftir Heimi Hallgrímssyni, öðrum landsliðsþjálfaranna, á Fótbolti.net í gærkvöld að líklega yrði Guðmundur Þórarinsson, miðjumaður Nordsjælland, kallaður til Tallinn. Samkvæmt upplýsingum frá KSÍ rétt í þessu hefur ekkert verið staðfest ennþá hver eða hverjir myndu bætast í hópinn, ef það yrðu yfirleitt einhverjir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert