Fótboltinn því miður ekki eilífur

Hjörtur Hermannsson
Hjörtur Hermannsson Golli@mbl.is

„Mér líður ljómandi vel. Þetta lukkaðist frábærlega. Það er kannski ótrúlegt frá því að segja þar sem ég var í aðgerð á mjöðm að ég er er bara gangandi núna,“ sagði hinn tvítugi Hjörtur Hermannson leikmaður PSV í Hollandi og leikmaður 21-árs landsliðsins í knattspyrnu þegar að mbl.is sló á þráðinn til hans í dag.

Hjörtur fór í aðgerð á mjöðm í Svíþjóð síðastliðinn fimmtudag vegna meiðsla sem hafa verið að hrjá hann í um átta mánuði. Búast má við því að Hjörtur verði frá í þrjá til sex mánuði vegna meiðslanna. 

„Þetta hefur verið hrjá mig síðastliðna átta mánuði. Frá jólum hafði þetta verið alveg skelfilegt. Ég var farinn að taka bólgueyðandi daginn fyrir leik og verkjastillandi á leikdegi þangað til ég gat ekki meira,“ sagði Hjörtur en hann þurfti að fara af velli vegna meiðslanna í leik gegn NEC Nijmegen þann 9. febrúar. „Þá sagði ég hingað og ekki lengra og þá hófum við frekari rannsóknir á þessu öllu saman,“ sagði Hjörtur.

Aðgerðin gekk hins vegar vonum framar.

„Það er eitthvað sem ég bjóst svo sannarlega ekki við. Maður er á hækjum utan dyra en í stuttum vegalengdum er í lagi að vera án þeirra. Ég er bara í fantaformi, það verður að segjast,“ sagði Hjörtur

„Ég er verkjalaus og hef nánast verið frá aðgerð. Ég fékk fyrst þvílíka skammta af verkjalyfjum en er nánast hættur á þeim þannig að ég er bara ánægður með þetta,“ sagði Hjörtur en um mislögun í mjaðmaskálinni og lærbeinshálsinum sem gengur upp í hana er að ræða. 

„Það sem þurfti að gera var að snyrta beinið til og fræsa í burtu þann hluta sem veldur mér óþægindum,“ sagði Hjörtur.

Sárt að vera kominn svona nálægt fyrsta leiknum

Tímabilið þrír til sex mánuðir er vítt þar sem það er mjög einstaklingsbundið hversu lengi fólk er að glíma við þessi meiðsli. Hjörtur er hins vegar bjartsýnn á að þetta verði nær þremur mánuðunum.

„Ég stilli sjálfan mig inn á þrjá mánuði og svo sjáum við bara hvað setur,“ sagði Hjörtur sem vill að sjálfsögðu vera kominn sem fyrst út á völlinn.

Hjörtur hefur verið nálægt því að spila sinn fyrsta leik fyrir stórlið PSV og verið þrisvar í hóp liðsins á þeim þremur árum sem hann hefur verið hjá félaginu. Vel er hugsað um hann hjá PSV en yfirlæknir liðsins fór með Hirti til Svíþjóðar og var viðstaddur aðgerðina og segist Hjörtur vera afar ánægður hjá félaginu.

„Ég er búinn að vera þrisvar í hóp hjá þeim og verið óheppinn. Maður er alltaf að komast ansi nálægt þessu og þá kemur bakslag í þetta. Þetta er annað árið í röð sem ég missi af enda tímabilsins. Ég hef samt fengið gríðarlega jákvæðar fréttir frá starfsfólki aðalliðsins öllu saman. Það tekur mig sárt að að ég skuli vera kominn svona nálægt þessu og var kominn ansi nálægt því að fá minn fyrsta leik með aðalliðinu, þá kemur þetta upp,“ sagði Hjörtur.

Hjörtur situr ekki auðum höndum í Hollandi þrátt fyrir að vera í fullri vinnu sem atvinnumaður í knattspyrnu en hann er á þriðja ári í fjarnámi við Verzlunarskóla Íslands.

„Ég er í skóla, er í fjarnámi frá Versló. Það þarf að hafa eitthvað á bak við sig, fótboltinn er því miður ekki eilífur. Ég ætti að vera útskrifast hefði ég tekið þetta á sama hraða en ég stefni á að útskrifast vorið 2016,“ sagði Hjörtur Hermannsson.

Hjörtur Hermannsson í sjúkrarúminu.
Hjörtur Hermannsson í sjúkrarúminu. Mynd/Ólafur Garðarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert