„Misstum dampinn of fljótt“

Rúrik Gíslason
Rúrik Gíslason mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við misstum dampinn full fljótt eftir markið eftir að hafa byrjað leikinn mjög vel,“ sagði Rúrik Gíslason leikmaður íslenska landsliðsins í knattspyrnu við mbl.is eftir jafnteflið við Eista í Tallinn í kvöld.

Lokatölur urðu, 1:1, og skoraði Rúrik mark Íslands þegar hann kom liðinu yfir strax á 9. mínútu leiksins.

„Það var fínn kraftur í liðinu til að byrja með og við settum mark Eistanna snemma en ég veit ekki hvað gerðist eftir markið. Eistarnir náðu tökum á leiknum eftir um hálftíma og þeir voru sterkari það sem eftir lifði leiksins.

Við áttum klárlega að fá tvær vítaspyrnur í leiknum og ég skil ekki af hverju þessir sprotadómarar dæma ekki víti sem er beint fyrir framan nefið á þeim. Það var auðvitað mikið um breytingar á liðinu og fyrir vikið dettur jafnvægið niður í liðinu. Mér fannst menn leggja sig vel fram í leiknum. Við vorum grimmir en auðvitað hefðum við viljað gera betur en raun bar vitni,“ sagði Rúrik Gíslason sem skoraði sitt þriðja landsliðsmark.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert