Selfoss síðasta liðið í undanúrslit

Guðmunda Brynja Óladóttir skoraði tvö mörk.
Guðmunda Brynja Óladóttir skoraði tvö mörk. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

Selfyssingar tryggðu sér í kvöld fjórða og síðasta sætið í undanúrslitum Lengjubikars kvenna í knattspyrnu með því að sigra ÍBV, 4:2, í lokaleik A-deildarinnar á Jáverkvellinum á Selfossi.

Þar með er ljóst að Breiðablik mætir Þór/KA og Stjarnan mætir Selfossi í undanúrslitum á laugardaginn en Breiðablik fékk 15 stig, Stjarnan 9, Selfoss 9, Þór/KA 6, Fylkir 3 og ÍBV 3 stig. 

ÍBV þurfti sjö marka sigur til að komast áfram á kostnað Selfyssinga og það var aldrei í spilunum. Selfoss var 2:1 yfir í hálfleik og eftir að Natasha Anasi hjá ÍBV fékk rauða spjaldið snemma í seinni hálfleik var á brattann að sækja fyrir Eyjakonur.

Guðmunda Brynja Óladóttir skoraði tvö marka Selfyssinga, Eva Lind Elíasdóttir og Donna Henry sitt markið hvor. Shaneka Gordon skoraði bæði mörk ÍBV.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert