Litlar líkur á að Fylkisvöllur verði tilbúinn

Eitt hornið á Fylkisvellinum er skammt á veg komið eins …
Eitt hornið á Fylkisvellinum er skammt á veg komið eins og sést vel á þessari mynd sem tekin var um miðjan dag í gær. mbl.is/Eggert

Vallarstjórar liðanna í Pepsi-deild karla í knattspyrnu hafa í mörg horn að líta þessa dagana eins og jafnan á þessum árstíma. Þeir vinna hörðum höndum við að reyna að gera vellina klára áður en flautað verður til leiks í deildinni sunnudaginn 3. maí en segja má að veðurguðirnir séu þeim ekki mjög hliðhollir. Það er köld norðanátt ríkjandi í veðurkortunum þar sem hitastigið fer í nokkrar gráður í mínus og það seinkar vitaskuld sprettunni og gróandanum í völlunum sem sumir hverjir eiga töluvert langt í land að teljast vera orðnir góðir.

Morgunblaðið tók púlsinn á vallarstjórum þeirra liða sem eiga heimaleik í fyrstu umferð Pepsi-deildarinnar. Hljóðið var ágætt í þeim flestum en eins og undanfarin ár er Fylkisvöllurinn í Árbæ mesta spurningarmerkið og meiri líkur en minni á að ekki verði leikið á honum í fyrstu umferðinni. Hann er þó í miklu betra ásigkomulagi nú en á sama tíma í fyrra en Fylkir spilaði ekki á Fylkisvellinum fyrr en í 7. umferðinni á síðustu leiktíð. Möguleiki er á að Fylkir og Breiðablik víxli heimaleikjum sínum í fyrstu umferðinni en einnig er inni í myndinni að Fylki spili á gervigrasi.

Sjá nánar í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert