Stjarnan meistari meistaranna

Stjarnan er meistari meistaranna í karlaflokki í knattspyrnu eftir 1:0 sigur á KR í Kórnum í kvöld en sigurmarkið kom undir blálokin.

Deildar- og bikarmeistarar síðasta keppnistímabils mættust í meistarakeppni KSÍ í kvöld en leikurinn var hnífjafn og greinilegt að bæði lið eru að mæta nokkuð vel undirbúin fyrir Íslandsmótið sem hefst á sunnudag.

Ólafur Karl Finsen átti fyrsta dauðafæri leiksins en Pablo Punyed átti þá aukaspyrnu sem fór á Ólaf, sem stýrði honum í stöngina. KR-ingar voru ívið hættulegri í fyrri hálfleiknum en þeim tókst þó ekki að skapa sér nein alvöru dauðafæri.

Stjörnumenn mættu beittari inn í síðari hálfleikinn og átti Jeppe Hansen meðal annars skot í stöng eftir hornspyrnu en Stefán Logi Magnússon, markvörður KR, greip frákastið. 

Sigurmarkið kom undir lok leiksins. Hinn 19 ára gamli, Þórhallur Kári Knútsson, kom þá inná sem varamaður og stuttu seinna skoraði hann. Heiðar Ægisson flaug þá upp hægri vænginn og kom knettinum inn í teiginn þar sem Þórhallur var mættur til að koma knettinum í stöng og inn.

Lokatölur í Kórnum því 1:0, Stjörnunni í vil. Stjarnan mætir ÍA í fyrsta leik Pepsi-deildarinnar næstu helgi á meðan KR mætir FH.

Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is.

Stjarnan 1:0 KR opna loka
90. mín. Óskar Örn Hauksson (KR) á skot sem er varið Hörkuskot! Hann lætur vaða með vinstri en Gunnar ver frá honum. Þetta virðist vera að fjara út.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert