Draumabyrjun Leiknis í efstu deild

Haukur Páll Sigurðsson má hér ekki við margnum gegn Leikni …
Haukur Páll Sigurðsson má hér ekki við margnum gegn Leikni í kvöld.

Það má með sanni segja að eldskírn Leiknis í efstu deild hafi verið draumi líkust þegar liðið mætti Valsmönnum á Hlíðarenda í fyrstu umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu í kvöld. Nýliðarnir unnu þá mjög sanngjarnan 3:0-sigur fyrir framan fjölmarga stuðningsmenn sína sem fjölmenntu í stúkuna.

Þeir þurftu heldur ekki að bíða lengi eftir fyrsta markinu því strax á áttundu mínútu leit fyrsta mark þeirra dagsins ljós. Það skoraði Kolbeinn Kárason, fyrrum Valsmaður, þegar hann skilaði boltanum í netið af markteig eftir hornspyrnu.

Hagur Breiðhyltinga vænkaðist enn frekar einungis fimm mínútum síðar þegar Sindri Björnsson tvöfaldaði forskot þeirra, en hann skoraði þá af stuttu færi eftir hreint út sagt skelfileg mistök Hauks Páls Sigurðssonar, fyrirliða Vals. Hann reyndi þá að hreinsa frá innan teigs með bakfallsspyrnu, en lagði þess í stað upp markið fyrir Sindra.

Leikurinn róaðist nokkuð eftir markið, en skömmu undir lok fyrri hálfleiksins fékk Elvar Páll Sigurðsson hreint dauðafæri þegar hann slapp einn í gegn en skaut yfir mark Valsmanna. Verðskulduð staða í hálfleik, 2:0 fyrir Leikni.

Valsmenn hafa eflaust fengið harðorða predikun frá Ólafi Jóhannessyni í hálfleik. Þeir komu ákveðnir til leiks og héldu boltanum vel, en þegar komið var fram á síðasta þriðjung vallarins virtist allt detta niður dautt. Leiknismenn gáfu engin færi á sér og sóttu hratt þegar færi gafst. Leikurinn var að spilast alveg eins og þeir vildu.

Þetta upplegg skilaði sér líka heldur betur vel, því stundarfjórðungi fyrir leikslok kom þriðja markið. Það skoraði Hilmar Árni Halldórsson, sem var frábær á miðjunni, þegar hann tók vel á móti langri sendingu, keyrði inn í teiginn og skilaði boltanum í netið. Einfalt og árangursríkt.

Valsmenn héldu áfram að reyna en í takt við snemmbúið brotthvarf stuðningsmanna þeirra úr stúkunni var lítið að gerast hjá þeim. Leikurinn fjaraði að lokum út og Leiknismenn fögnuðu skiljanlega af innlifun, 3:0 sigur þeirra staðreynd.

Fylgst var með gangi mála í beinni lýsingu á mbl.is sem má skoða hér að neðan og öllum leikjum dagsins í ÍSLENSKA BOLTANUM Í BEINNI. Nánar verður fjallað um leikinn í Morgunblaðinu á morgun og viðtöl koma hér á vefinn síðar í kvöld.

Úr leik Vals og Leiknis í dag.
Úr leik Vals og Leiknis í dag.
Valur 0:3 Leiknir R. opna loka
90. mín. Elvar Páll Sigurðsson (Leiknir R.) fer af velli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert