Erfitt að dæma þegar áhorfendur eru fáir

Ívar Orri Kristjánsson er yngsti dómarinn í Pepsi-deild karla í …
Ívar Orri Kristjánsson er yngsti dómarinn í Pepsi-deild karla í ár. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

Ívar Orri Kristjánsson er yngsti dómari Pepsi-deildar karla í sumar, 25 ára gamall. „Ég dæmdi minn fyrsta leik í efstu deild í lokaumferðinni 2013 og nokkra leiki í fyrra. Vonandi dæmi ég marga í ár," sagði Ívar Orri við Morgunblaðið.

Hann byrjaði að dæma fyrir algjöra tilviljun árið 2010. „Þá var ég að spila með Skallagrími, var meiddur og plataður á dómaranámskeið.“

Ívar lék upp alla yngri flokkana og tvö ár í meistaraflokki Skallagríms og telur það hjálpa sér í dómgæslunni. „Vissulega, geri ég mér grein fyrir því um hvað leikurinn snýst.“

Vill fleiri en færri áhorfendur

En hefur dómarinn ungi rekist á einhverja velli sem sérstaklega erfitt er að dæma á? „Nei, það eru engir sérstakir vellir. En mér finnst oft erfitt að dæma þegar áhorfendur eru fáir því þá verður andrúmsloftið oft allt öðruvísi inni á vellinum. Það verður oft persónulegra.“ Honum finnst leikmenn líka oft hegða sér betur þegar vellirnir eru fullir.

UEFA mótar unga dómara

Í vetur tók Ívar þátt í verkefni á vegum UEFA. „Ég og tveir aðstoðardómarar vorum svo heppnir að taka þátt í þvi. Fórum við tvisvar í vetur til Sviss þar sem við dvöldum samtals í átján daga. Þar vorum við undir handleiðslu fyrrverandi dómara.“

Ívar og félagar dæmdu leiki og hlutu kennslu. „Það er verið að móta unga dómara í Evrópu. Virkilega skemmtilegt og rosalega krefjandi verkefni.“

Ívar er í toppstandi enda þurfa dómarar að vera í góðu formi, líkt og leikmennirnir. „Nálægðin skiptir máli, við þurfum að geta haldið í við flæði leiksins.“ Eldri og reyndari dómarar hafa tekið hinum unga vel. „Það er auðvelt að komast inn í þennan hóp, þetta er allt mjög gott fólk.“

Hann hlakkar mikið til sumarsins og býst við að allir sem komi að fótboltanum muni njóta þess.

„Ég er virkilega spenntur fyrir sumrinu og held að það verði góð skemmtun fyrir dómara, leikmenn og áhorfendur.“

Er með þykkan skráp

Að endingu spyr blaðamaður hvort það geti ekki tekið á að heyra fólk hreyta í mann fúkyrðum. Ívar segir svo ekki vera. „Ef ég gerði það þá væri ég einhversstaðar annars staðar í lífinu. Dómarar þurfa þykkan skráp og ákveða hvað þeir vilja heyra og hvað ekki.,“ sagði Ívar Orri Kristjánsson.

Viðtalið við Ívar er úr 40 síðna blaðinu Fótboltinn 2015 sem fylgdi Morgunblaðinu á föstudaginn og þar er m.a. ein síða um dómarana í Pepsi-deild karla. Fyrstu leikir deildarinnar fara fram í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert