Kristján áfram sá leikjahæsti

Kristján Finnbogason
Kristján Finnbogason mbl.is/Árni Sæberg

Kristján Finnbogason, varamarkvörður FH-inga, sem verður 44 ára gamall í þessum mánuði, er bæði elsti leikmaður Pepsi-deildar karla í ár og leikjahæstur þeirra sem skipa leikmannahópa liðanna tólf í deildinni.

Kristján hefur spilað 268 leiki í efstu deild með ÍA, KR og Fylki en hann hefur ekki náð að spila leik í deildinni fyrir FH-inga enn sem komið er. Kristján lék síðast í deildinni undir lok tímabilsins 2013, þá með Fylki, en var varamarkvörður fyrir Róbert Örn Óskarsson hjá FH á síðasta tímabili án þess að þurfa að hlaupa í skarðið.

Aðeins tveir leikmenn í sögu íslenskrar knattspyrnu hafa spilað fleiri leiki í efstu deild hérlendis en Kristján. Birkir Kristinsson lék 321 leik í markinu hjá KA, ÍA, Fram og ÍBV og Gunnar Oddsson spilaði 294 leiki í deildinni með Keflavík, Leiftri og KR.

Þeir sem hafa leikið 200 leiki og meira í efstu deild í upphafi tímabilsins, og eru í leikmannahópum liðanna tólf í deildinni 2015, eru sjö talsins.

Atli leikjahæsti útispilarinn

Atli Jóhannsson, miðjumaður Stjörnunnar, er leikjahæstur af útispilurunum í deildinni í ár. Atli hefur leikið 233 leiki með ÍBV, KR og Stjörnunni. Hann er í 13.-14. sæti yfir þá leikjahæstu frá upphafi og gæti farið upp í 5.-6. sætið í ár, nái hann að spila alla leiki Stjörnunnar á tímabilinu.

Magnús S. Þorsteinsson, sóknarmaður Keflvíkinga, kemur næstur af þeim sem spila í deildinni í ár. Hann hefur leikið 220 leiki með Keflavík og Grindavík.

Grétar Sigfinnur Sigurðarson, miðvörður KR-inga, kemur næstur með 218 leiki fyrir Val, Víking og KR.

Atli Viðar Björnsson, framherji FH-inga, hefur spilað 205 leiki í deildinni, alla fyrir Hafnarfjarðarliðið.

Hólmar Örn Rúnarsson, miðjumaður Keflvíkinga, sem er kominn aftur þangað frá FH, er með 204 leiki fyrir þessi tvö félög.

Óskar Örn Hauksson, kantmaður úr KR, komst á listann yfir 200 leikja mennina í lokaumferð Íslandsmótsins í fyrra en þá lék hann sinn 200. leik í efstu deild.

Einn 200 leikja maður hefur lagt skóna á hilluna frá því í fyrra. Fjalar Þorgeirsson, sem þá varði mark Vals, á að baki 227 leiki í deildinni. Hann er nú markvarðaþjálfari hjá Stjörnunni.

Greinin er úr 40 síðna blaðinu Fótboltinn 2015 sem fylgdi Morgunblaðinu á föstudaginn en fyrstu leikirnir í Pepsi-deild karla fara fram í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert