Klaufar að auka ekki forystuna

Bjarni Guðjónsson ræðir málin við fjórða dómara leiksins.
Bjarni Guðjónsson ræðir málin við fjórða dómara leiksins. mbl.is/Golli

Bjarni Guðjónsson, þjálfari KR, var ekki sáttur með niðurstöðuna úr leik KR og FH í fyrstu umferð Pepsi deildarinnar í knattspyrnu sem fram fór á Alvogen vellinum í kvöld. Lokatölur í leiknum á Alvogen vellinum urðu 3:1 fyrir FH. Bjarni gat þó fundið jákvæða punkta í spilamennsku KR-inga í leiknum.

„Leikurinn þróaðist á þá leið sem að við vonuðumst eftir. Mér fannst við halda þeirra styrkleikum í skefjum. Við reyndum svo að skapa færi og mér fannst það ganga vel. Við komumst verðskuldað yfir og vorum óheppnir að auka ekki við forystuna. Markvörðurinn þeirra (Róbert Örn Óskarsson) varð oft vel í leiknum og svo var bjargað allavega einu sinni á línu.“ sagði Bjarni í viðtali við mbl.is.

„Við vorum að mínu viti klaufar að nýta ekki okkar færi og klára ekki leikinn. Mér fannst við ná að loka vel á þeirra styrkleika. Þeir ná hins vegar að skora svo tvö mörk úr föstum leikatriðum og refsa okkur svo þegar þeir opna okkur í eina skiptið í leiknum.  

„Þetta var ekki eins og við lögðum upp með að byrja mótið. Þetta er erfitt lið að spila á móti. FH liðið er vel mannað og með góðan þjálfara. Við vissum fyrir leikinn að leikurinn yrði erfiður. Ég var hins vegar aðallega svekktur með hvernig mörk FH komu í kvöld. Við þurfum eitthvað að skoða hvernig við verjumst föstum leikatriðum. Við erum með öfluga leikmenn innanborðs og við þurfum að leggjast yfir það hvernig þeir náðu að skora tvö mörk úr föstum leikatriðum.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert