Atli afgreiddi KR-inga

FH-ingar lögðu KR-inga að velli, 3:1, í fyrstu umferð úrvalsdeildar karla í knattspyrnu, Pepsi-deildarinnar, á KR-vellinum í kvöld þar sem Atli Guðnason tryggði sigurinn með tveimur mörkum undir lokin.

Fyrri hálfleikur einkenndist af mikilli baráttu þar sem ekkert var gefið eftir, en lítið var um marktækifæri í köldum vindinum og sólinni. Liðin áttu sína kafla þar sem þau náðu upp nokkurri pressu. Stefán Logi Magnússon í marki KR varði vel hörkuskot frá Steven Lennon snemma leiks en þar með voru góð færi upptalin.

FH-ingum var brugðið eftir hálftíma leik þegar Róbert Örn Óskarsson markvörður lá eftir í markteignum eftir hasar fyrir framan mark FH, og virtist illa meiddur, en eftir nokkra aðhlynningu hélt hann áfram. Fjögur gul spjöld fóru á loft í fyrri hálfleik og KR-ingar fengu þrjú þeirra.

Mörkin fjögur komu hinsvegar öll í seinni hálfleiknum og Jacob Schoop kom KR yfir á 50. mínútu með skalla eftir sendingu frá Sören Frederiksen, 1:0.

Kristján Flóki Finnbogason jafnaði fyrir FH á 73. mínútu með skoti af stuttu færi eftir hornspyrnu Jonathans Hendrickx frá vinstri, 1:1. Markið kom strax eftir tvöfalda skiptingu FH-inga og óhætt að segja að hún hafi virkað strax.

FH missti Hendrickx af velli, meiddan, skömmu síðar og útlit er fyrir að um alvarleg meiðsli sé að ræða.

Á 85. mínútu skoraði Atli Guðnason fyrir FH eftir sendingu frá Atla Viðari Björnssyni en þeir sluppu tveir gegn einum varnarmanni KR.

Róbert Örn Óskarsson varði í kjölfarið tvívegis vel frá Sören Frederiksen og kom í veg fyrir að KR jafnaði metin.

Í staðinn skoraði Atli Guðnason sitt annað mark í uppbótartímanum, með hörkuskoti frá vítateig uppúr hornspyrnu, og þar með var sigur FH-inga í höfn.

KR 1:3 FH opna loka
90. mín. Atli Guðnason (FH) skorar 1:3 - Hornspyrna frá hægri, skalli frá marki KR og út á vítateig þar sem Atli tók hann viðstöðulaust og skoraði með hörkuskoti. Sigur FH í höfn!
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert