Úrvalsdeildin markmiðið

Jóhann Berg í leik með Charlton.
Jóhann Berg í leik með Charlton. Ljósmynd/cafc.co.uk

 Jóhann Berg Guðmundsson getur svo sannarlega verið ánægður með sitt fyrsta tímabil á Englandi.

Vinstrifótarmaðurinn skæði, sem er þekktur fyrir sín þrumuskot, átti afar góðu gengi að fagna með Charlton í ensku B-deildinni en hann gekk í raðir liðsins frá AZ Alkmaar síðastliðið sumar. Jóhann varð annar markahæsti leikmaður Lundúnaliðsins á tímabilinu með 11 mörk og eftir lokaleik liðsins um síðustu helgi varð hann annar í kjöri á leikmanni ársins. Frammistaða Jóhanns á tímabilinu hefur vakið mikla athygli og lið úr ensku úrvalsdeildinni hafa sýnt honum áhuga. Það er því ekki loku fyrir það skotið að við fáum að sjá kappann í úrvalsdeildinni á næstu leiktíð en Jóhann á eitt ár eftir af samningi sínum við Charlton-liðið.

Þjálfarinn treysti mikið á mig

„Ég gæti ekki verið ánægðari með eigin frammistöðu á mínu fyrsta tímabili á Englandi. Ég náði að skora nokkur mörk og standa mig vel,“ sagði Jóhann Berg við Morgunblaðið en hann kemur heim í stutt frí til Íslands í dag áður en hann heldur til Spánar þar sem hann hyggst hlaða batteríin og hvíla lúin bein eftir langt og strangt tímabil.

„Ég vann mér strax sæti í liðinu og maður vill sýna hvað maður getur í fótbolta með því að spila frekar en að sitja á bekknum. Ég spilaði nær alla leiki okkar á tímabilinu og þjálfarar liðsins treystu mikið á mig. Það var gaman."

Spurður hvort eitthvað á þessu fyrsta tímabili á Englandi hafi komið honum á óvart sagði Jóhann Berg;

„Deildin var töluvert erfiðari en ég átti von. Leikjaálagið er mjög mikið og fyrir vikið er æft minna heldur en í Hollandi. Tempóið er miklu meira hér á Englandi og þú getur ekki slakað á gegn neinu liði. Það geta allir unnið alla í þessari deild. Það eru fleiri jöfn lið. Toppliðin í þessari deild eru með leikmenn sem eru í úrvalsdeildarklassa en hvað Holland varðar þá er líka fullt af góðum leiknum spilurum.“

 Berg segist hafa verið fljótur að aðlagast hlutunum á Englandi.

„Ég komst fljótt inn í hlutina og ég fékk að heyra það frá þjálfaranum fyrir tímabilið að ég myndi spila alla leiki þegar ég væri heill heilsu. Það gefur manni mikið sjálfstraust og ef maður spilar nokkra leiki í röð þar sem manni finnst maður vera að standa sig vel þá eflist sjálfstraustið og allt verður skemmtilegra,“ sagði Jóhann Berg en Charlton endaði tímabilið í 12. sæti með 60 stig.

Sjá alltt viðtalið við Jóhann Berg í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert