Vantaði hreyfingu í liðið

Heimir Guðjónsson, þjálfari FH, var gríðarlega svekktur með frammistöðu FH liðsins þegar liðið tapaði fyrir Val í þriðju umferð Pepsi deildar karla á Vodafone-vellinum í kvöld. Lokatölur í leiknum urðu 2:0 fyrir Vali og þetta var fyrsta tap FH á tímabilinu.

„Þetta var slæmt tap og mér fannst við bara heppnir að sleppa með 2:0 tap hér í kvöld. Við vorum allt of langt frá mönnum í leiknum varnarlega. Það er þannig að ef að þú ætlar að verjast almennilega þá verður þú að verjast frá fremsta manni til þess aftasta og það var ekki til staðar í þessum leik. Það er lágmarkskrafa að leikmenn nenni að hreyfa sig og það var ekki uppi á teningnum í kvöld.“

„Valsmenn áttu gersamlega miðsvæðið í þessum leik og það er oft lykillinn að því að vinna fótboltaleiki og það var reyndin í leiknum í kvöld. Ég sá Valsmenn spila gegn Víkingi í síðustu umferð og þeir spiluðu vel í þeim leik og við vitum alveg að Valur er með hörkulið. Það er því skrýtið að menn hafi ekki mætt grimmari til leiks hér í kvöld.“

„Til þess að sóknarleikur geti gengið upp þurfa menn að nenna að hreyfa sig eins og ég sagði áðan. Það var ekki til staðar og sóknarleikurinn var slakur. Nú þarf ég bara að setjast niður og kryfja þennan leik og leita lausna við því að bæta sóknarleikinn í næsta leik sem er gegn Skagamönnum á miðvikudaginn kemur.“ sagði Heimir Guðjónsson í viðtali við mbl.is eftir leikinn í kvöld. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert