Loksins skoraði Atli gegn ÍA

Atli Viðar Björnsson stekkur upp og skallar boltann í mark …
Atli Viðar Björnsson stekkur upp og skallar boltann í mark ÍA, og gerir sitt 100. mark í efstu deild. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

Þó Atli Viðar Björnsson hafi nú skorað 100 mörk í efstu deild karla í knattspyrnu fyrir FH-inga hefur hann ekki gert mikið af því að hrella Skagamenn undanfarin ár.

Atli Viðar skoraði síðast gegn ÍA í deildinni árið 2005, í síðasta tapleik FH gegn Skagamönnum sem kom á Akranesi það ár, 2:1. Þar áður gerði hann mark FH þegar liðin skildu jöfn, 1:1, í Kaplakrika árið 2002. Þó þrettán ár séu liðin frá þeim leik voru báðir markaskorararnir í honum í byrjunarliðum félaganna í Kaplakrika í gærkvöld, því mark ÍA þá skoraði Garðar B. Gunnlaugsson.

Þetta mark Atla Viðars, sem kom FH á bragðið í 4:1 sigrinum á ÍA, er að sjálfsögðu sögulegasta atvikið í leikjunum sex í fjórðu umferðinni í gærkvöld. Atli hefur gert öll 100 mörkin fyrir FH og er aðeins annar leikmaðurinn í sögunni sem nær að skora hundrað mörk fyrir eitt og sama félagið. Hinn er Ingi Björn Albertsson sem gerði 109 af 126 mörkum sínum í deildinni fyrir Valsmenn.

Og til að rifja það aftur upp hafa aðeins tveir aðrir en Atli og Ingi náð að skora 100 mörk í deildinni. Tryggvi Guðmundsson gerði 131 mark fyrir ÍBV, FH og KR og Guðmundur Steinsson skoraði 101 mark fyrir Fram og Víking.

FH hefur nú fengið 31 stig af 33 mögulegum í síðustu ellefu leikjum gegn FH í efstu deild og það eru liðin tíu ár síðan Skagamenn höfðu síðast betur í deildaleik á milli félaganna, en það var áðurnefndur leikur á Akranesi.

Rúnar Páll Sigmundsson þjálfari Stjörnunnar tefldi fram sama byrjunarliði og sömu sjö varamönnunum fjórða leikinn í röð þegar Íslandsmeistararnir sóttu Víking heim í gærkvöld.

Jafnteflið þar, 2:2, þýðir að Stjarnan hefur nú leikið 26 leiki í röð í deildinni án þess að tapa og Rúnar er sjálfur ósigraður í síðustu 27 leikjum sínum sem þjálfari í deildinni.

Jeppe Hansen búinn að skora í þremur leikjum Stjörnunnar í röð og hefur nú gert níu mörk í 13 leikjum sínum fyrir Garðabæjarliðið í deildinni.

KR-ingar skoruðu í sínum sextánda leik í röð gegn Fylki í deildinni en síðast náðu Vesturbæingar ekki að koma boltanum í markið hjá Árbæingum árið 2007 þegar liðin gerðu markalaust jafntefli á Fylkisvelli. Í öllum átta heimsóknum sínum í Árbæinn frá þeim tíma hafa KR-ingar skorað að minnsta kosti tvö mörk og aðeins tapað einu sinni. KR hefur skorað 23 mörk í þessum átta leikjum.

Halldór Kristinn Halldórsson skoraði langþráð mark þegar hann kom Leikni yfir strax á 2. mínútu í Vestmannaeyjum. Halldór skoraði þar sitt fyrsta mark í efstu deild í 76 leikjum, fyrir Leikni, Keflavík og Val.

Fjölnir vann Keflavík í fyrsta skipti á heimavelli í efstu deild en þetta var fjórða heimsókn Keflvíkinga í Grafarvoginn.

Breiðablik er áfram með tak á Val á Kópavogsvellinum og hefur nú fengið 16 stig af 18 mögulegum þar gegn Hlíðarendaliðinu á síðustu sex árum. Valsmenn hafa ekki skorað nema eitt mark í þessum sex heimsóknum sínum, en það gerði Guðjón Pétur Lýðsson, núverandi leikmaður Breiðabliks, í 1:1 jafntefli liðanna árið 2011..

Fimm leikmenn skoruðu í gærkvöld sitt fyrsta mark í efstu deild hér á landi. Það voru Jérémy Sewry (FH), Arsenij Buinickij (ÍA), Andri Rúnar Bjarnason (Víkingi), Halldór Kristinn Halldórsson (Leikni) og Ólafur Hrannar Kristjánsson (Leikni).

Einn leikmaður þreytti frumraun sína í efstu deild í gærkvöld. Það var Birnir Snær Ingason, 18 ára sóknarmaður Fjölnis, sem kom inná eftir 69 mínútna leik gegn Keflavík.

Gunnar Nielsen markvörður Stjörnunnar gómar boltann í leiknum við Víking …
Gunnar Nielsen markvörður Stjörnunnar gómar boltann í leiknum við Víking í gærkvöld. mbl.is/Styrmir Kári
Andri Rafn Yeoman og Sigurður Egill Lárusson eigast við í …
Andri Rafn Yeoman og Sigurður Egill Lárusson eigast við í leik Breiðabliks og Vals. mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert