Góður sigur Fylkis í Keflavík

Hólmar Örn Rúnarsson og Ásgeir Örn Arnþórsson í baráttunni á …
Hólmar Örn Rúnarsson og Ásgeir Örn Arnþórsson í baráttunni á Nettóvellinum í kvöld. Ljósmynd/Víkurfréttir

Keflavík tók á móti Fylki í 5. umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu en flautað var til leiks á Nettóvellinum klukkan 19.15. Markalaust var að loknum fyrri hálfleik en Árbæingar náðu góðum skyndisóknum í síðari hálfleik og tryggðu sér öll stigin með 3:1 sigri. Fylgst var með gangi mála í leiknum í beinni textalýsingu hér á mbl.is.

Fylkir hefur aðeins tapað einum leik af fyrstu fimm og er með 8 stig. Keflavík er hins vegar aðeins með 1 stig og fjögur töp í fyrstu fimm umferðunum. 

Fyrri hálfleikurinn fór nánast fram á vallarhelmingi Keflavíkur en þá voru Fylkismenn með vindinn í bakið og settu Keflvíkinga undir mikla pressu á köflum. Hollendingurinn Richard Arends hélt Keflavík þá inni í leiknum með góðri markvörslu en hann var ekki eins öruggur í síðari hálfleik. 

Keflavík átti ekki markskot gegn vindinum í fyrri hálfleik og reyndi að færa sig framar í þeim síðari. Andrés Már Jóhannesson skoraði eftir vel útfærða skyndisókn og stoðsendingu frá Alberti Ingasyni á 53. mínútu. Albert skoraði sjálfur úr vítaspyrnu á 58. mínútu. Ingimundur Níels Óskarsson fékk hana eftir samstuð við Arends en Ingimundur hafði komið inn á sem varamaður um hálfri mínútu áður. 

Keflvíkingar svöruðu þó fyrir sig á 61. mínútu þegar annar varamaður Magnús Þorsteinsson skallaði í netið af stuttu færi eftir sendingu frá Hólmari Erni Rúnarssyni. Oddur Ingi Guðmundsson veitti Keflvíkingum nánast rothöggið á 70. mínútu með marki af stuttu færi eftir að Arends varði frá Ingimundi í góðu færi. Þriðja mark Odds í sumar fyrir Fylki. Keflvíkingar virtust missa trúna eftir þriðja mark Fylkis og Fylkismenn lönduðu sigrinum án teljandi vandræða. 

Keflavík 1:3 Fylkir opna loka
90. mín. Leik lokið Leiknum er lokið með 3:1 sigri Fylkis.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert