Tæpur sigur KR á ÍBV í Vesturbænum

Óskar Örn Hauksson sækir að vörn Eyjamanna á KR-vellinum í …
Óskar Örn Hauksson sækir að vörn Eyjamanna á KR-vellinum í dag. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

KR-ingar þurftu 79 mínútur til að brjóta ísinn á móti ÍBV í leik liðanna í Pepsi-deild karla í knattspyrnu. Lokatölur urðu 1:0 fyrir heimamenn í Frostaskjólinu en úrslitin verða að teljast sanngjörn án þess þó að taka neitt af Eyjamönnum sem voru þéttir fyrir og skipulagðir lengst af.

Með sigrinum fór KR í toppsætið þar sem liðið hefur 10 stig en Eyjamenn eru í botnsætinu með eitt stig.

Eina mark leiksins skoraði Óskar Örn Hauksson á 79. mínútu eftir slæmt úthlaup Guðjóns Orra Sigurjónssonar sem átti annars prýðisgóðan leik í markinu.

KR-ingar hófu leikinn betur og héldu boltanum vel innan síns liðs og með vindinn í bakið áttu Eyjamenn í miklum vandræðum með uppspilið

KR-ingar fengu fjölmörg færi í fyrri hálfleik til þess að skora og tvisvar fór boltinn í þverslána. Í fyrra skiptið eftir hornspyrnu frá Dananum Jacob Schoop. Aðeins mínútu síðar rak Óskar Örn smiðshöggið á sókn KR-inga en var óheppinn með skotið sem fór í þverslá og niður, Eyjamenn stálheppnir að vera ekki komnir undir.

KR-ingar fengu fjölmörg hálffæri eftir þetta en náðu ekki að brjóta ísinn.

Eyjamenn áttu nokkrar álitlegar sóknir en besta færi þeirra og nánast besta færi leiksins fékk fyrirliði þeirra, Avni Pepa eftir hornspyrnu Víðis Þorvarðarsonar. Boltinn datt dauður í teignum og Pepa var fyrstu að átta sig, átti þrumuskot af meters færi en Stefán Logi varð frábærlega, 0:0 í hálfleik.

KR-ingar voru mun sterkari í síðari hálfleiknum en gekk illa að skapa sér opin færi. Þeir komu knettinum í netið á 69. mínútu eftir að Guðjón Orri Sigurjónsson markvörður ÍBV missti boltann en Gunnar Jarl Jónsson ágætur dómari leiksins dæmdi brot.

Á 79. mínútu braut Óskar Örn Hauksson ísinn eftir að hafa átt fremur slakan dag í KR-treyjunni. Löng sending barst frá bakverði KR-inga, Gunnari Þór Gunnarssyni, beint á Öskar Örn á fjær sem skallaði knöttinn yfir Guðjón Orra í markinu.

Eyjamenn fengu fín færi undir lok leiks til að jafna metin en tókst það ekki og lokatölur 1:0. 

Viðtöl munu birtast á mbl.is innan tíðar en fjallað verður ítarlega um leikinn í Morgunblaðinu á morgun.

Fylgst var með gangi mála í leiknum í beinni textalýsingu hér á mbl.is.

KR 1:0 ÍBV opna loka
90. mín. Víðir Þorvarðarson (ÍBV) á skalla sem fer framhjá +1. Góð sókn en skallinn rétt yfir. Eyjamenn hafa átt tvö ágætis færi á síðustu mínútum.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert