Trúi ekki að ég hafi klikkað

Þórir Guðjónsson fagnar marki sínu gegn Val í kvöld.
Þórir Guðjónsson fagnar marki sínu gegn Val í kvöld. mbl.is/Kristinn

„Það er mjög svekkjandi að hafa ekki tekið þrjú stig. Við hefðum mjög auðveldlega getað gert það og ég er bara pirraður út í sjálfan mig,“ sagði Þórir Guðjónsson, framherji Fjölnis, eftir 3:3-jafnteflið við Val í Pepsideildinni í kvöld.

Þórir var nálægt því að tryggja Fjölni sigurinn í uppbótartíma en skallaði boltann framhjá af stuttu færi eftir undirbúning Arons Sigurðarsonar.

„Þetta var dauða, dauðafæri. Ég trúi ekki að ég hafi klikkað á þessu og er mjög svekktur. Ég skallaði boltann beint en hefði átt að sneiða hann aðeins,“ sagði Þórir. Í fyrri hálfleiknum skoraði hann hins vegar glæsilegt mark eftir að hafa sólað eina fjóra varnarmenn Vals.

„Ég bjóst ekki við því að komast svona langt, en þetta heppnaðist,“ sagði Þórir sem var einnig ánægður með mark Arons Sigurðarsonar sem skoraði með þrumuskoti efst í vinstra markhornið: „Þetta var mjög flott hjá stráknum og hann verður bara að setja fleiri svona. Hann getur þetta alveg.“

Fjölnir er nú með 8 stig eftir 5 leiki og hefur byrjað leiktíðina mjög vel.

„Við erum virkilega sáttir með það sem komið er og verðum bara að halda áfram á þessu róli. Mér fannst við spila vel í kvöld og vera með yfirhöndina meirihlutann af leiknum en auðvitað er fínt að fá stig á þessum erfiða útivelli. Það er líka gleðiefni að vera farnir að skora almennilega og vonandi höldum við því áfram.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert