Enn mikilvægara að vinna Ísland

Tomás Necid og Rúrik Gíslason í baráttunni í Plzen í …
Tomás Necid og Rúrik Gíslason í baráttunni í Plzen í haust. mbl.is/Eva Björk

„Ef við vinnum á Íslandi þá erum við komnir í afar vænlega stöðu,“ sagði Pavel Vrba, þjálfari Tékklands, eftir að hafa valið hópinn sinn sem mætir Íslandi í toppslag A-riðils undankeppni EM karla í knattspyrnu þann 12. júní.

Tékkar unnu 2:1-sigur gegn Íslandi í Plzen í haust en þeir gerðu svo óvænt 1:1-jafntefli við Lettland í mars. Þeir eru efstir í riðlinum með 13 stig en Ísland er með 12 stig. Holland er í 3. sæti með 7 stig og Tyrkir í 4. sæti með 5 stig. Tvö efstu lið riðilsins fara beint áfram í lokakeppnina og þriðja liðið nær einnig þangað beint eða í gegnum umspil.

„Við höfum fengið fleiri stig í sumum leikjum en við bjuggumst við, en á hinn bóginn reiknuðum við með þremur stigum gegn Lettlandi. Þegar allt er talið erum við samt með fleiri stig en við bjuggumst við,“ sagði Vrba. Leikurinn við Ísland verður á Laugardalsvelli 12. júní.

„Þetta verður ekki síður mikilvægur leikur en þegar við mættumst í Pilsen. Ef við næðum sigri yrði það gríðarlega mikilvægt. Það lítur út fyrir að þetta sé einn helsti keppinautur okkar um það að komast upp úr riðlinum. Þess vegna væri enn mikilvægara að vinna, og skilja sig þannig frá þeim,“ sagði Vrba.

Tékkar eru eina liðið sem hefur skorað gegn Íslandi í undankeppninni, en Ísland hefur haldið hreinu í fjórum leikjum.

„Þetta sýnir hvað skipulagið í vörninni er stöðugt. Ég sá Ísland mæta Tyrklandi og Hollandi á heimavelli og þó að andstæðingarnir hafi kannski verið meira með boltann þá var Ísland hættulegra. Tyrkir og Hollendingar vita vel að það er erfitt að skora gegn Íslandi,“ sagði Vrba.

Treystir á reynslu Rosický

Tékkneskir fjölmiðlar hafa nokkrar áhyggjur af því hve lítið Tomás Rosický, ein skærasta stjarna Tékka, spilaði með Arsenal í vetur en Vrba metur reynslu miðjumannsins mikils.

„Staðan var svolítið erfið hjá Tomás hjá Arsenal. Við ræddum málin og hann hefur mikið fram að færa þó að hann hafi spilað lítið. Ég hef sagt að það skipti máli að menn hafi stór hlutverk hjá sínum félagsliðum en þetta er svolítið öðruvísi varðandi Tomás. Í haust hjálpaði hann okkur mikið þrátt fyrir að vera ekki að spila með Arsenal, og ég held að þannig verði það á Íslandi. Ég treysti á hans reynslu,“ sagði Vrba.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert