Þægilegur sigur Leiknismanna á Víkingum

Úr leik Leiknis og Víkings í kvöld.
Úr leik Leiknis og Víkings í kvöld. Eggert Jóhannesson

Leiknismenn unnu sinn annan sigur í deildinni þegar þeir lögðu Víkinga að velli á heimavelli sínum í Breiðholti, 2:0, en mörk Leiknismanna skoruðu Sindri Björnsson og Charley Fomen í sitthvorum hálfleiknum. Mark Fomens var einkar glæsilegt, þrumuskot, beint úr aukaspyrnu.

Sigurinn verður að teljast fyllilega verðskuldaður og talsvert þægilegur fyrir Leiknismenn.

Með sigrinum fóru Leiknismenn í átta stig í fimmta sætinu en Víkingar hafa sex í því áttunda.

Leiknismenn voru mun sterkari aðilinn í fyrri hálfleiknum og héldu boltanum mikið mun betur. Það var ekki sjón að sjá Víkinga sem náðu afskaplega illa saman þar sem margar feilsendingar einkenndu leik þeirra.

Þegar röðin var komin að áttundu hornspyrnu Leiknismanna í fyrri hálfleiknum brast stíflan þegar að Sindri Björnsson, miðjumaður þeirra, lúrði á fjær og náði með naumindum að koma knettinum í markið, 1:0 en markið kom á 32. mínutu og staðan þannig í hálfleik.

Víkingar hresstust aðeins í síðari hálfleiknum og héldu boltanum betur.

Á 61. mínútu dró til tíðinda þegar að Leiknismenn fengu aukaspyrnu á gríðarlega hættulegum stað.

Hinn sparkvissi Charley Fomen tók spyrnuna og þrumaði boltanum utarlega yfir veginn, og að því er virtist, beint á markið en Denis Cardaklija réð ekki við skotið en Denis til varnar var það gríðarlega fast.

Víkingar höfðu yfirhöndina eftir markið og Rolf Toft átti meðal annars þrumuskot í þverslá beint úr aukaspyrnu en inn vildi boltinn ekki.

Víkingar sóttu afar hart að marki Leiknismanna á lokamínútunum en heimamenn voru þéttir fyrir og héldu út, lokatölur 2:0.

Viðtöl birtast hér á vefnun innan tíðar og þá verður ítarlega fjallað um leikinn í Morgunblaðinu á morgun.

Fylgst var með gangi mála í leiknum í beinni textalýsingu hér á mbl.is.

Leiknir R. 2:0 Víkingur R. opna loka
90. mín. Leiknismenn eru að sigla öðrum sigrinum í efstu deild í hús!
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert