Vilja ekki lenda í þessu aftur

Bæði Stjörnumönnum og FH-ingum er í fersku minni hvernig fór …
Bæði Stjörnumönnum og FH-ingum er í fersku minni hvernig fór síðastliðið haust. Nú mætast liðin aftur í fyrsta sinn frá leiknum örlagaríka. mbl.is/Ómar

Stjarnan og FH mætast í sannkölluðum stórleik í Garðabæ í kvöld í Pepsi-deild karla en um fyrstu viðureign liðanna er að ræða frá einhverjum dramatískasta knattspyrnuleik hérlendis á síðari árum þegar Stjörnumenn tryggðu sér sigur með vítaspyrnumarki Ólafs Karls Finsens.

FH-ingar sátu eftir með óbragð í munni og hafa síður en svo gleymt leiknum og vilja kvitta fyrir sig með því að komast fjórum stigum fyrir ofan Stjörnuna ásamt því að binda endi á 26 leikja taplausa göngu Garðbæinga. Veigar Páll Gunnarsson fékk rautt spjald í þeim leik og man vel eftir honum. „Ætli við Óli (Karl Finsen) munum ekki best eftir þeim leik,“ sagði Veigar Páll þegar Morgunblaðið sló á þráðinn til hans í gær en hann segir leikinn afar mikilvægan.

Bæði lið á sömu braut

„Við höfum sýnt í þessum fyrstu fjórum leikjum að bæði lið eru á sömu braut og í fyrra. Þessi leikur er hrikalega mikilvægur. Við verðum að vinna eða ná stigi. Þó að mótið sé rétt byrjað þá er óþægilegt að hafa FH-ingana fjórum stigum fyrir framan sig. Ef við náum upp okkar spili og gefum allt í leikinn þá eru meiri líkur á okkar sigri á okkar heimavelli,“ sagði Veigar sem hefur þurft að verma varamannabekinn í fyrstu fjórum leikjunum til þessa.

„Er það ekki bara af því að maður er smá gamall? Það getur vel verið. Við erum með það sterkan hóp að það er ekki sjálfgefið að ég eða einhver annar eigi að vera í byrjunarliði. Maður þarf að vinna sig inn í liðið. Ég var veikur fyrstu tvo leikina, við vinnum þá en höfum gert tvö jafntefli í leikjunum eftir það. En ég veit ekki með byrjunarliðið á morgun, það getur vel verið að maður fái að spreyta sig,“ sagði Veigar en Stjörnumenn gerðu jafntefli við Leikni og Víking.

Atli Guðnason, framherji FH-inga, verður í eldlínunni á morgun. Aðspurður segir Atli leikinn vera öðruvísi í ljósi þess sem gerðist síðasta haust.

Engin þörf á eldræðu

„Jú, eflaust, þetta er stærra í sniðum en þetta eru sterk lið sem mætast og þá verður alvöru leikur. Maður verður bara að vera klár“ sagði Atli sem segir óþarft fyrir þjálfara liðsins, Heimi Guðjónsson, að minnast á leikinn örlagaríka til að mótívera menn fyrir kvöldið.

„Ég held að hann þurfi þess ekki. Menn sjá það sjálfir að það var ekki skemmtilegt og menn vilja ekki lenda í því aftur. Eftir Valsleikinn sjá menn að það er sama hversu gott lið við erum, ef við leggjum okkur ekki fram, og spilum ekki saman þá töpum við fyrir hverjum sem er, sérstaklega fyrir Stjörnunni sem er með gott lið,“ sagði Atli sem segir FH-inga ekki óstöðugri í ár en áður.

„Frammistaðan hefur verið upp og ofan, ágæt, mjög góð og skelfileg stundum“ – en ekki óstöðugri en áður? „Í rauninni ekki, vellirnir eru ekki góðir og veðrið hefur ekkert verið sérstakt. Það koma alveg leikir þar sem við náum ekki að spila okkar bolta en eins og undanfarin ár þá held ég að við verðum bara sterkari og sterkari,“ sagði Atli Guðnason.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert