„Erum að elta“

Jörundur Áki Sveinsson þjálfari Fylkis.
Jörundur Áki Sveinsson þjálfari Fylkis. Eggert Jóhannesson

„Það alltaf svekkjandi að tapa og miðað við hvernig við byrjuðum leikinn er ég óánægður með að fá allavega ekki eitt stig,“ sagði Jörundur Áki Sveinsson, þjálfari Fylkis, í samtali við mbl.is. eftir að lið hans tapaði 3:1 gegn Val í kvöld í 3. umferð Pepsi-deildar kvenna í knattspyrnu. Fylkir hefur tapað tveimur leikjum í röð og er með 3 stig eftir þrjá leiki.

Jörundi fannst svekkjandi að Valur skyldi komast aftur yfir eftir að hans stúlkur höfðu jafnað í 1:1 í upphafi síðari hálfleiks. „Við lendum í því að fá mark á okkur undir lok fyrri hálfleiks og förum vel yfir málin í hálfleik og skorum mark og fannst leikurinn þá í góðu jafnvægi. Við vorum þá komnar með örlitla yfirhönd en fáum á okkur mark skömmu síðar og svo þriðja og það gerði út um leikinn.“

Liðið er með þrjá útlendinga og þær byrja allar á bekknum. „Ég er ekki alveg nógu ánægður með þær. Þær voru fengnar til að styrkja hópinn og verða bara að gera betur.“

Er hann ósáttur við stigasöfnun liðsins í upphafi móts? „Við erum búin að vera í erfiðu prógrammi. Síðustu tveir leikir hafa ekki verið nógu góðir en það er stutt í næsta leik og við verðum að bretta upp ermar og þjappa okkur saman. Við erum svolítið á eftir þessum liðum, Valur er með 9 stig og við 3. Við erum því svolítið að elta þessi lið sem við erum að reyna að bera okkur saman við,“ sagði Jörundur Áki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert