„Höfum ekkert unnið ennþá“

Valur sigraði Fylki 3:1 í miklum baráttuleik í kvöld.
Valur sigraði Fylki 3:1 í miklum baráttuleik í kvöld. Eggert Jóhannesson

Ólafur Tryggvi Brynjólfsson, þjálfari Vals, var að vonum kátur eftir að lið hans sigraði Fylki 3:1 í 3. umferð Pepsi-deildar kvenna í kvöld. Með sigrinum er Valur búið að vinna fyrstu þrjá leiki sína og eru einar á toppnum með fullt hús stiga.

„Það er mjög gott að vera á toppnum, samt eru bara þrír leikir búnir svo við höfum ekkert unnið ennþá,“ sagði Ólafur í samtali við mbl.is eftir leik, aðspurður hvort það væri ekki gott að vera á toppnum. „Við verðum bara að halda áfram.“

Ólafi fannst leikurinn einkennast af baráttu. „Þetta var náttúrulega bara barátta, gríðarleg barátta. Fylkisliðið er mjög baráttuglatt og gefur aldrei eftir og við þurftum að taka á því. Við erum með góð gæði fram á við sem geta klárað leiki.“

Fannst Ólafi ekki sætt að skora annað markið stuttu eftir að Fylkir hafði jafnað? „Ég var frekar svekktur yfir því að vera ekki meira yfir í hálfleik þegar við áttum nokkur frekar góð færi á meðan þær sköpuðu lítið sem ekkert. Því voru annað og þriðja markið kærkomin.“

Næsti leikur er á þriðjudaginn þegar Valur heimsækir Íslandsmeistara Stjörnunnar. „Við munum undirbúa okkur vel fyrir þann leik og komum þangað til að stríða þeim. Við verðum tilbúnar í þann leik,“ sagði Ólafur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert