Ákvað að taka mig aðeins á

Guðmunda Brynja Óladótti fagnar marki.
Guðmunda Brynja Óladótti fagnar marki. Guðmundur Karl

Guðmunda Brynja Óladóttir átti góðan leik í liði Selfoss og skoraði sigurmark liðsins gegn Íslands- og bikarmeisturum Stjörnunnar í kvöld í Pepsi-deild kvenna en Selfyssingar bundu þar með enda á 19 leikja óslitna runu Stjörnunnar í deildinni án taps.

Guðmunda var sammála blaðamanni um að sigurinn hefði verið verðskuldaður.

„Mér fannst það. Við náðum að loka á þær og mér fannst þær ekki komast í hættuleg færi en þær fengu hálffæri. Það reyndi á Söndru (Sigurðardóttir, markvörð Stjörnunnar) bæði í fyrri og seinni hálfleik og hún varði oft vel. Við vorum einbeittar og lokuðum vel og börðust meira fyrir þessu,“ sagði Guðmunda.

„Við lögðum leikinn upp þannig að við ætluðum að pressa á þær og gefa þeim ekki tíma á boltann. Við höfum spilað við þær þrisvar sinnum á stuttum tíma og kunnum á þær,“ sagði Guðmunda sem er sjálf í fantaformi og hefur skorað þrjú mörk í þremur leikjum á tímabilinu.

„Mér fannst ég spila illa í fyrsta leiknum þannig að ég ákvað að taka mig aðeins á. Mér finnst ég vera búin að vera koma vel til baka,“ sagði Guðmunda sem hefur heldur betur gert það. Hún skoraði tvö mörk gegn ÍBV í 3:2 sigri í síðustu umferð og skoraði svo sigurmarkið í kvöld.

„Burt séð frá fyrsta leiknum þá hefur verið mikil barátta í okkur, aftur gamla Selfossliðið eins og það var að spila í fyrra. Við erum þekktar fyrir það að hætta aldrei og vera frekar leðinlegar inni á vellinum, við gefum mótherjanum lítinn tíma og mér fannst það skila okkur sigrinum í kvöld,“ sagði Guðmunda sem segir Selfossliðið stefna hátt í sumar.

„Við lentum í 4. sæti í fyrra og stefnan hjá liðinu er að gera betur. Annað væri vitleysa, mér finnst allt í lagi að stefna á toppinn og fyrstu þrjú sætin eru raunhæft markmið. Miðað við hvernig deildin er að spilast þá eru allir að vinna alla, maður veit ekkert hver verður eftir, sagði Guðmunda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert