Stór áfangi Gunnleifs - setti ÍBV met?

Gunnleifur Gunnleifsson gómar boltann í leik ÍA og Breiðabliks.
Gunnleifur Gunnleifsson gómar boltann í leik ÍA og Breiðabliks. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

Gunnleifur Gunnleifsson náði stórum áfanga á Akranesi í fyrrakvöld, og það gerði Kópavogsliðið reyndar líka. ÍBV setti líklega met, Albert Ingason, Aron Sigurðarson og fleiri koma við sögu í yfirliti yfir eitt og annað markvert sem gerðist í fimmtu umferð Pepsi-deildar karla sem leikin var á mánudags- og þriðjudagskvöld.

Gunnleifur Gunnleifsson, markvörðurinn reyndi, lék sinn 200. leik í efstu deild þegar Breiðablik lagði ÍA 1:0, á Akranesi og bætist því í ört stækkandi hóp þeirra sem ná þeim leikjafjölda. Árangur Gunnleifs er hinsvegar athyglisverður ef horft er til þess að hann á að baki ein níu tímabil utan efstu deildar og hann hefur samtals spilað 335 deildaleiki hér á landi á ferlinum. Aðeins níu í sögu Íslandsmótsins hafa spilað fleiri leiki en það.

Gunnleifur hefur spilað þessa 200 leiki með fimm félögum, KR, Keflavík, HK, FH og Breiðabliki. Hann á leikjamet HK í efstu deild og spilaði 39 af þeim 40 leikjum sem félagið hefur leikið á þeim vettvangi.

Í leiðinni tók Gunnleifur þátt í sögulegum sigri Blika sem náðu þremur stigum á Akranesvelli í fyrsta sinn á þessari öld. Þeir unnu þar síðast 3:2 árið 1999 og höfðu frá þeim tíma mætt þar ÍA í deildinni sjö sinnum án þess að sigra.

Albert Ingason náði líka áfanga en hann varð annar Fylkismaðurinn í sögunni til að skora 40 mörk fyrir félagið í efstu deild þegar hann gerði eitt markanna í 3:1 sigri Árbæinga í Keflavík. Albert er nú aðeins einu marki frá markameti Sævars Þórs Gíslasonar fyrir Fylki en hann skoraði 41 mark fyrir félagið í deildinni.

Um leið framlengdu Fylkismenn sigurgöngu sína í Keflavík en þar hafa þeir nú unnið fjóra leiki og gert eitt jafntefli síðustu fimm árin. Fram að því höfðu þeir hinsvegar aldrei unnið Keflavík á útivelli í efstu deild, í þrettán tilraunum!

Aron Sigurðarson, sóknarmaður Fjölnis, kann vel við sig á Hlíðarenda því hann hefur skorað þrjú af fjórum mörkum sínum í efstu deild á Vodafonevellinum. Hann skoraði tvívegis í fyrra þegar Valur vann Fjölni, 4:3, og gerði eitt markanna í 3:3 jafnteflisleik liðanna á mánudagskvöldið. Óhætt að segja að þessi tvö lið bjóði árlega upp á markaleiki!

Tveir nýliðar léku sinn fyrsta leik í deildinni í 5. umferðinni. Hans Viktor Guðmundsson kom inná hjá Fjölni gegn Val og dansk/bosníski framherjinn Sead Gavranovic kom inná hjá ÍBV gegn KR.

Gavranovic náði engu að breyta um það að Eyjamenn eru enn án sigurs á KR-vellinum frá árinu 2003 þegar Ian Jeffs og Steingrímur Jóhannesson skoruðu í 2:0 sigri ÍBV þar. Frá þeim tíma hefur KR unnið sjö leiki og þrisvar orðið jafntefli í tíu leikjum liðanna í deildinni á KR-velli. Þá var þetta 40. sigur KR á ÍBV frá upphafi í deildinni, í 83 leikjum.

Sennilega setti ÍBV met í leiknum á KR-velli þegar Jóhannes Harðarson þjálfari var með sex erlenda leikmenn á varamannabekknum. Fjórir þeirra komu ekkert við sögu, Abel Dhaira, Tom Evan Skogsrud, Dominic Adams og Jonathan Barden en þeir Jonathan Glenn og áðurnefndur Sead Gavranovic komu inná. Aðeins þrír af níu erlendum leikmönnum ÍBV hófu leikinn.

Charley Fomen, kamerúnski bakvörðurinn hjá Leikni, skoraði sitt fyrsta mark í deildinni þegar hann innsiglaði sigurinn góða gegn Víkingi, 2:0, með glæsilegu skoti.

Þeir Michael Præst úr Stjörnunni, Kassim Doumbia úr FH, Kristinn J. Magnússon úr KR, Anton Ari Einarsson og Kristinn Ingi Halldórsson úr Val, Tómas Guðmundsson úr Víkingi, Eggert Kári Karlsson úr ÍA og Kjartan Ágúst Breiðdal úr Fylki léku allir sinn fyrsta leik á tímabilinu í 5. umferðinni.

Rúnar Páll Sigmundsson gerði sínar fyrstu breytingar á byrjunarliði Stjörnunnar á tímabilinu fyrir leikinn gegn FH, þegar hann skipti út þremur leikmönnum. Hann hafði stillt upp óbreyttu liði í fyrstu fjórum leikjunum. Jafnteflið þýddi að Rúnar og Stjarnan eru ósigruð í 27 leikjum í röð í deildinni, og Rúnar sjálfur í 28 leikjum. FH á metið, 31 leikur í röð án taps á árunum 2004 til 2005.

FH hefur nú komið í heimsóknir í Garðabæinn fimm ár í röð án þess að vinna. Síðasti sigur FH gegn Stjörnunni á útivelli í deildinni kom árið 2010 en frá þeim tíma hefur Stjarnan unnið tvisvar og þrisvar orðið jafntefli í leikjum liðanna á gervigrasinu.

Albert Ingason í baráttu við varnarmenn Keflavíkur.
Albert Ingason í baráttu við varnarmenn Keflavíkur. Ljósmynd/Víkurfréttir
Aron Sigurðarson kann vel við sig á Hlíðarenda.
Aron Sigurðarson kann vel við sig á Hlíðarenda. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir
Þórarinn Ingi Valdimarsson og Ólafur Karl Finsen í leik Stjörnunnar …
Þórarinn Ingi Valdimarsson og Ólafur Karl Finsen í leik Stjörnunnar og FH. mbl.is/Kristinn
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert