Tvö gul á tíu sekúndum – „Var að öskra á liðsfélagana“

Mist Elíasdóttir fær sitt annað gula spjald í kvöld.
Mist Elíasdóttir fær sitt annað gula spjald í kvöld. Ljósmynd/Þórir Ó. Tryggvason

Mist Elíasdóttir, markvörður Aftureldingar, fékk að líta rauða spjaldið í 5:2-tapi liðsins gegn Þór/KA fyrir norðan í kvöld. Það sem meira er, þá fékk Mist tvö gul spjöld á einungis tíu sekúndum.

„Hún var að áreita dómarann [Vilhelm Adolfsson] eftir að það hafi verið brotið mikið á henni í föstum leikatriðum sem dómarinn dæmdi ekki á, þar á meðal þegar mark númer tvö hjá Þór/KA kom,“ sagði Theódór Sveinjónsson, þjálfari Aftureldingar, þegar mbl.is náði tali af honum í bílnum á leið suður aftur í kvöld.

„Dómaranum mislíkaði þetta og gaf henni gult spjald. Svo labbar hann í burtu og Mist er að öskra á liðsfélaga sína að rífa sig upp og þá virðist hann gefa henni annað gult spjald og þar með rautt. Manni fannst þetta svolítið sérstakt, ég hefði viljað að dómarinn hefði bara aðeins andað, slappað af og lesið leikinn betur. En þess í stað tók hann þessa ákvörðun og kláraði leikinn fyrir Þór/KA,“ segir Theódór.

„Það var mikið kallað á hana úr stúkunni, áhorfendur voru að segja henni að þegja og slíkt. Það var hátt spennustig á þessum tíma enda staðan þá 2:2 og mjög jafn leikur. Hann hefur tekið því eins og hún hafi verið að öskra á sig einhverra hluta vegna,“ sagði Theódór, en tók það fram að hann heyrði ekki hvað Mist á að hafa sagt.

Mist fékk fjögur gul spjöld í fyrstu fjórum umferðunum á síðasta tímabili og fékk bann í kjölfarið. Hún taldi þá ákveðna dómara leggja sig í einelti. „Við upplifðum það í fyrra þar sem hún fékk fjögur gul spjöld í fyrstu fjórum leikjunum, öll mjög sérstök,“ sagði Theódór en vildi ekki geta sér til um það hvort slíkt sé að endurtaka sig.

„Auðvitað á að bera virðingu fyrir dómurum en það má stundum segja hluti. Dómarar þurfa að geta tekið ýmsu eins og leikmenn inni á vellinum,“ sagði Theódór Sveinjónsson við mbl.is í kvöld.

Þess má geta að sextán ára systir Mistar, Gná Elíasdóttir, kom í markið í stað systur sinnar í kvöld og spilaði sinn fyrsta leik í efstu deild.

Sjá: Sjö mörk og rautt í hasar á Akureyri

Mist Elíasdóttir í leiknum í kvöld.
Mist Elíasdóttir í leiknum í kvöld. Ljósmynd/Þórir Ó. Tryggvason.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert