Var eiginlega búin að snúa mér við

Harpa Þorsteinsdóttir er einn af lykilleikmönnum Stjörnunnar.
Harpa Þorsteinsdóttir er einn af lykilleikmönnum Stjörnunnar. Styrmir Kári

„Það er voðalega erfitt að benda á eitthvað eitt sem fór úrskeiðis í þessum leik. Mér fannst við arfaslakar í fyrri hálfleik og við eigum að spila boltanum af mikið betri getu heldur en við gerðum í dag, sagði Harpa Þorsteinsdóttir, framherji Stjörnunnar sem skoraði eitt mark í 2:1 tapi gegn Selfossi í Pepsi-deild kvenna.

Stjarnan hafði fyrir leikinn í kvöld spilað 19 leiki í röð án þess að tapa en það kom í kvöld gegn sterku liði Selfoss en liðin eru jöfn að stigum með sex stig í 4. og 5. sætinu.

Stjörnuliðið var ólíkt sér að mörgu leyti þar sem það skapaði sér afar fá færi í leiknum.

„Já, við sköpuðum held ég ekki opið marktækifæri á þessum 90 mínútum og það segir sig sjálft að þá erum við ekki að halda boltanum eins og við viljum halda honum. Við viljum halda honum niðri með jörðinni og viljum geta spilað honum í gegn. Við þurfum að skoða það hvernig við mætum til leiks. Getan er til staðar, sagði Harpa, svekkt eftir leikinn.

Harpa skoraði jöfnunarmark Stjörnunnar en markið var afar klaufalegt þar sem frekar laust skot Hörpu úr þröngu en talsvert löngu færi, fór í gegnum klofið á markverði Selfoss, Chante Sandiford, sem átti fyrir utan það góðan leik.

„Nei, ég get alveg verið hreinskilinn með það. Ég var eiginlega búin að snúa mér við þegar ég áttaði mig á því að hann hefði farið inn,“ sagði Harpa og hélt áfram, „Við áttum kannski inni eina gjöf.“

Fyrir mótið í ár voru margir sem höfðu það á orði að deildin yrði jafnari og sú virðist raunin strax vera.

Harpa býst við skemmtilegu móti í sumar þar sem öll lið eigi eftir að tapa stigum og fleiri lið muni bætast í toppbaráttuna. Breiðablik, sem spáð var titlinum í ár, gerði til að mynda jafntefli við nýliða KR í kvöld.

„Ég hugsa að mótið komi til með að spilast svolítið skemmtilega. Liðin eiga eftir að koma til með að tapa stigum. Það verða fleiri lið í toppbaráttunni heldur en í fyrra. Liðin eru einhvern vegin betur undirbúin heldur ne í fyrra. Það er samt engin krísa hjá okkur. Við erum alveg undir það búnar að tapa stigum, við þurfum bara að bregðast rétt við,“ sagði Harpa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert