Öruggur Stjörnusigur í toppslagnum

Harpa Þorsteinsdóttir með boltann gegn Val í kvöld.
Harpa Þorsteinsdóttir með boltann gegn Val í kvöld. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Stjarnan sigraði Val, 4:0, í leik liðanna á Samsungvelli í kvöld í efstu deild kvenna í knattspyrnu. Í upphafi leiks átti Valskonur fína takta og sköpuðu sér hálffæri en um leið og nokkrar mínútur voru liðnar af leiknum náðu Stjörnustúlkur völdum. 

Írunn Þorbjörg Aradóttir kom heimamönnum svo yfir a 10. mínútu með laglegu skoti á vítateigslínunni eftir að Valskonur höfðu hreinsað. Stjörnustúlkur voru áfram sterkari aðilinn og aðeins átta mínútum síðar bætti Ana Victoria Cate við öðru marki þeirra með skoti utan úr teig, einnig eftir að Valskonur höfðu hreinsað frá marki. Sóknarleikur Vals hefur oft verið betri en stærsta hættan sem þær sköpuðu í leiknum kom skömmu fyrir leikhlé. Átti þá Mist Edvardsdóttir skalla í slánna eftir hornspyrnu.

Síðari hálfleikur var ekki ósvipaður fyrri hálfleik. Stjarnan var sterkari aðilinn en Valskonur sköpuðu sér aðeins hálffæri auk þess sem þær voru oft dæmdar rangstæðar. Stjarnan sótti mikið upp hægri kantinn og komu síðari tvö mörk þeirra einmitt þaðan. Það fyrra á 57. mínútu þegar fyrirliðinn Ásgerður Stefanía Baldursdóttir batt endahnútinn á laglega sókn liðsins upp hægri kantinn eftir að Sigrún Ella hafði látið boltann fara á milli lappa sér. Það síðasta skoraði varamaðurinn Guðrún Karítas Sigurðardóttir, einnig utan úr teig eftir flotta sókn upp hægri kantinn.

Valur fékk síðan tvö færi í síðari hálfleik. Það fyrra fékk Elín Metta Jensen eftir laglegt þríhyrningsspil við Vesnu Smiljkovic og það síðara fékk varamaðurinn María Selma Haseta en hún náði ekki að koma boltanum fyrir markið í tæka tíð undir lok leiksins. 

Fylgst var með gangi mála í öllum leikjum kvöldsins á ein­um stað í ÍSLENSKA BOLT­AN­UM Í BEINNI hér á mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert