Selfoss burstaði nýliða Þróttar

Donna Kay Henry skoraði tvö marka Selfoss í kvöld.
Donna Kay Henry skoraði tvö marka Selfoss í kvöld. Styrmir Kári

Selfoss átti ekki í neinum vandræðum þegar liðið tók á móti nýliðum Þróttar í Pepsi-deild kvenna í knattspyrnu í kvöld. Fylgst var með gangi mála í ÍSLENSKA BOLT­AN­UM Í BEINNI hér á mbl.is.

Það var fljótt ljóst í hvað stefndi. Donna Kay Henry opnaði markareikning sinn fyrir Selfoss á tíundu mínútu, og hún bætti við öðru marki átta mínútum síðar. Guðmunda Brynja Óladóttir skoraði svo sitt fjórða mark í jafnmörgum leikjum skömmu síðar áður en Dagný Brynjarsdóttir skoraði sitt fyrsta mark í sumar. 4:0 og ekki hálftími liðinn af leiknum.

Selfoss gat leyft sér að slaka aðeins á hvað markaskorun varðar eftir þessa kröftugu byrjun, en Erna Guðjónsdóttir bætti við marki stundarfjórðungi fyrir leikslok og þar við sat, lokatölur 5:0.

Selfoss jafnaði Stjörnuna og Val að stigum, en öll hafa liðin níu stig og eru stigi á eftir toppliðum Breiðabliks og Þór/KA. Þróttur er hins vegar enn án stiga, situr á botninum og leitar enn að sínu fyrsta marki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert