„Það munaði ekki miklu

Skagamenn fagna marki sínu í kvöld.
Skagamenn fagna marki sínu í kvöld. Mbl.is/Eva Björk

Gunnlaugur Jónsson, þjálfari Skagamanna, var bæði svekktur og ánægður eftir að hans menn gerðu 1:1 jafntefli við KR í 8. umferð Pepsi-deildar karla í Vesturbænum í kvöld.

„Heilt yfir held ég að jafntefli sé sanngjarnt. Liðin fengu góð færi í seinni hálfleik en við fengum hættulegri færi í fyrri hálfleik og það hefði ekkert verið ósanngjarnt að vera 2:0 yfir í hálfleik. Það sem ég var líka ánægður með var að við héldum áfram og við vorum nálægt því að gera annað mark í lokin og ég er ánægður með margt í þessum leik,“ sagði Gunnlaugur í samtali við mbl.is að leik loknum.

„Við tókum framfaraskref þegar við gerðum jafntefli við Fylki í síðasta leik og tökum annað í dag. Sóknarleikurinn er mun betri og við gerum mark og það er mikil framför að gera loksins mark, með nokkuð vængbrotið lið. Mér fannst þetta mjög fínt,“ sagði Gunnlaugur aðspurður hvort liðið væri ekki í stöðugri framför.

Skagamenn voru nálægt því að hirða öll stigin en Stefán Logi Magnússon, markvörður KR, varði aukaspyrnu Jóns Vilhelms Ákasonar í þverslá á síðustu andartökum leiksins. „Það er það sem ég er að segja. Við vildum ná sigrinum og gerðum allt til þess og áttum heldur betur atlögu undir blálokin og það munaði ekki miklu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert