Verður leiðinlegt að kveðja þær

Ásta Eir Árnadóttir í baráttunn við Donnu Henry, framherja Selfoss, …
Ásta Eir Árnadóttir í baráttunn við Donnu Henry, framherja Selfoss, í síðustu umferð. Eva Björk Ægisdóttir

„Mér fannst við allar byrja svolítið „shaky“ en þegar fyrsta markið kom þá róuðum við okkur niður og þetta gekk miklu betur,“ sagði Blikinn Ásta Eir Árnadóttir sem átti góðan leik fyrir liðið gegn Þór/KA í Pepsi-deild kvenna í knattspyrnu í kvöld þar sem lokatölur urðu 2:0 toppliði Breiðabliks í vil.

Ásta er ánægð með spilamennsku liðsins það sem af er og segir það verða erfitt að kveðja liðið í lok júlí en Ásta spilar í háskólaboltanum í Bandaríkjunum.

„Við erum á góði róli en tökum bara einn leik í einu og erum ekkert að fara fram úr okkur. Það verður leiðinlegt að kveðja þær í lok júlí. Það er eini gallinn við þetta að fara frá svona góðu liði,“ sagði Ásta við mbl.is í kvöld eftir leik.

„Ég er úti í námi í Bandaríkjunum og kom heim í fínu formi og það er að skila sér,“ sagði Ásta sem er upprunalega kantmaður og spilar yfirleitt framar með liði sínu ytra.

„Ég er upprunalega kantmaður og hef spilað þar alla mína tíð. Úti er ég á kantinum og fremst á miðjunni og frammi. Það er allt önnur staða hérna heima, mér finnst það bara gaman. Ég fýla að spila allar þessar stöður,“ sagði Ásta sem er sátt svo lengi sem hún fær að spila.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert