Hólmbert hafnaði sænsku og dönsku félagi

Hólmbert Aron Friðjónsson á æfingu með U21-landsliði Íslands.
Hólmbert Aron Friðjónsson á æfingu með U21-landsliði Íslands. mbl.is/Ómar

Hólmbert Aron Friðjónson segist nú vera að skoða þá möguleika sem honum bjóðist í Pepsideildinni en hann hefur ákveðið að snúa heim úr atvinnumennsku í knattspyrnu.

Þetta staðfesti Hólmbert við vefmiðilinn 433.is í kvöld. Þar segir hann ekki rétt að hann sé búinn að ákveða að ganga í raðir KR, en Fótbolti.net sagði frá því í kvöld að líklegast væri að framherjinn færi í Vesturbæinn. Hann mun einnig hafa rætt við Breiðablik, Val og Stjörnuna.

„Ég er bara að skoða það sem er í boði og hef verið að ræða við nokkur félög til að skoða alla möguleika,“ sagði Hólmbert við 433.is.

Hólmbert er samningsbundinn Celtic í Skotlandi en hann kom til þess frá Fram eftir gott tímabil 2013. Hann hefur fá tækifæri fengið hjá Celtic og var að láni hjá Bröndby í Danmörku í vetur. Honum bauðst að vera áfram í Danmörku eða fara til Svíþjóðar, en hafnaði því.

„Ég fékk tilboð frá Svíþjóð sem ég sagði strax nei við. Það var fullt af áhuga og Vestjælland sýndi mér rosalega mikinn áhuga sem ég er þakklátur yfir,“ sagði Hólmbert sem ákvað hins vegar að koma til Íslands í staðinn. Hann hafi ekki notið þess nægilega vel að vera úti: „Mér líður svona núna og ég ákvað að koma heim og finna gleðina á nýjan leik.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert