„Leynir sér ekki hversu stórt þetta félag er“

Rúrik Gíslason
Rúrik Gíslason mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Mér líst satt best að segja hrikalega vel á mig hjá þessu félagi og í þessum hópi,“ sagði Rúrik Gíslason, landsliðsmaður í knattspyrnu, við Morgunblaðið í gær, en hann var þá að ljúka fimm daga æfingaferð með sínu nýja félagi, Nürnberg í Þýskalandi, sem keypti hann af FC Köbenhavn í Danmörku snemma í júnímánuði.

Rúrik fékk lítið frí þetta sumarið því að keppni í dönsku úrvalsdeildinni lauk í lok maí og síðan tók við landsleikur Íslands og Tékklands 12. júní.

„Liðið byrjaði að æfa 21. júní og forráðamenn Nürnberg vildu fá mig strax í gang og koma mér inn í hlutina, þannig að ég mætti á svæðið 24. júní, fór í læknisskoðun og síðan með liðinu í æfingaferðina strax daginn eftir,“ sagði Rúrik, en liðið dvaldi við æfingar í fimm daga í Grassau, litlum bæ syðst í Þýskalandi. Fyrsti æfingaleikurinn fer svo fram í dag þegar Nürnberg mætir Jahn Regensburg.

Rúrik sagði að þessir fyrstu dagar hefðu verið framar vonum. „Já, það er svo mikið talað um að Þjóðverjar séu stífir en hópurinn kom mér skemmtilega á óvart. Það er miklu léttara yfir öllu hjá liðinu en ég þorði að vona. Móttökurnar voru mjög góðar og það leynir sér ekki hversu stórt þetta félag er. Margir ferðuðust með okkur til Grassau til að fylgjast með gangi mála og áhuginn er greinilega gífurlegur.

Svo eru Þjóðverjarnir þannig að þeir hata það alls ekki að æfa mikið, og það hentar mér virkilega vel. Það var einmitt það eina sem mér fannst ekki nógu gott hjá FC Köbenhavn, að það var æft full lítið fyrir minn smekk.“

Sjá allt viðtalið við Rúrik í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert