Hart mun mæta hörðu í Frostaskjólinu

Bjarni Guðjónsson, þjálfari KR.
Bjarni Guðjónsson, þjálfari KR. mbl.is/Golli

Bjarni Guðjónsson, þjálfari KR, vissi vart hvort hann ætti að vera sáttur eða svekktur eftir 1:1-jafntefli liðsins við Cork City frá Írlandi í 1. umferð forkeppni Evrópudeildar UEFA þegar liðin mættust ytra í kvöld.

„Svona beggja blands. Þetta eru ágætis úrslit, 1:1 á útivelli, en við erum klaufar í markinu sem þeir skora og hefðum hæglega getað sett annað mark undir lok fyrri hálfleiksins. Þeir eru grófir og harðir í horn að taka en mér fannst við standast það ágætlega,“ sagði Bjarni við mbl.is í kvöld.

Gonzalo Balbi fékk meðal annars að finna fyrir því og fór meiddur af velli í fyrri hálfleik eftir að hafa fengið aftan í lærið. Bjarni er þokkalega bjartsýnn fyrir síðari leikinn í Frostaskjólinu eftir viku, en í millitíðinni leikur liðið við FH í bikarnum á sunnudag.

Mér líst ágætlega á seinni leikinn. Það verður án efa hörku leikur þar sem þeir eru mjög grimmir og ákveðnir. Það er ekkert búið í þessu. Þeir fá frí, deildin hér úti hjálpar sínum liðum í gegnum Evrópukeppnina svo þeirra leik sem átti að vera á sunnudaginn var frestað. Þeir fá því að undirbúa sig eins vel og kostur er fyrir seinni leikinn,“ sagði Bjarni en telur lengri undirbúning írska liðsins ekki skipta sköpum.

„Það mun ekki skipta miklu fyrir okkur. Við erum vanir því að spila þétt og það hentar okkur vel. Í gegnum árin hefur þetta hentað KR-ingum vel að spila þétt og við fáum yfirleitt betri takt í okkar leik þannig,“ sagði Bjarni og telur mikilvægt að KR-ingar láti hart mæta hörðu í síðari leiknum.

„Það er alveg klárt mál. Við þurfum að mæta þeim í baráttunni og dugnaðinum og þá ættum við að ná í góð úrslit heima,“ sagði Bjarni Guðjónsson, þjálfari KR, við mbl.is í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert