Þetta verður þungur róður

„Þeir spiluðu upp á að leyfa okkur að hafa boltann. Við náðum bara ekki að gera neitt úr því. Það er kannski vandamálið. En það var margt gott í þessum leik en það kom í ljós að við erum þunnskipaður fram á við,“ sagði Ólafur Þórðarson þjálfari Víkinga eftir afar svekkjandi 1:0 tap þeirra í fyrstu umferð forkeppni Evrópudeildarinnar í knattspyrnu.

„Þetta var svekkjandi en við þurfum að gefa meira í sóknarteignum til að fá meira út úr leiknum. Við erum of mikið að bíða eftir að aðrir taki af skarið eða að boltinn komi til okkar,“ sagði Ólafur sem segir að róðurinn sem framundan er í keppninni sé þungur.

„Þetta verður þungur róður. En það er allt mögulegt, þetta er bara eitt mark. Ef við komum inn einu marki eigum við séns en mér finnst við þurfa að vera aðeins graðari í teignum til þess að geta vænst þess að fá einhver mörk,“ sagði Ólafur sem gefst auðvitað aldrei upp.

„Það er þannig að þegar maður er kominn á þetta stig, þá þarf maður að vera tilbúinn að gefa aðeins meira heldur en er á tanknum,“ sagði Ólafur Þórðarson.

Nánar er rætt við Ólaf í myndskeiðinu hér að ofan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert