Atli setti met í Helsinki

Atli Guðnason.
Atli Guðnason. mbl.is/Kristinn

Atli Guðnason, sóknarmaður úr FH, setti met í gærkvöld þegar Hafnarfjarðarliðið sigraði SJK Seinäjoki, 1:0, í fyrri leik liðanna í 1. umferð forkeppni Evrópudeildar UEFA í knattspyrnu í Helsinki.

Þetta kemur fram í samantekt Ólafs Brynjars Halldórssonar sem hefur haldið saman tölfræði yfir Evrópuleiki íslenskra félaga og leikmanna. 

Atli lék sinn 33. leik í Evrópukeppni fyrir FH og hefur þar með leikið fleiri leiki fyrir íslenskt félag en aðrir leikmenn. Fyrir leikinn deildi hann metinu með Alexander Högnasyni sem lék 32 Evrópuleiki með ÍA og Fylki. Þá hefur Baldur Sigurðsson leikið 31 Evrópuleik fyrir KR og Keflavík.

Atli er samt aðeins í 12. sæti yfir leiknar mínútur en hann hefur leikið samtals í 2.091 mínútu í Evrópukeppni. Alexander lék 32 leiki og 2.757 mínútur, Baldur 31 leik og 2.673 mínútur og síðan kemur Birkir Kristinsson, fyrrverandi markvörður Fram og ÍBV, með 27 leiki og 2.460 mínútur. 

Atli er jafnframt orðinn áttundi leikjahæsti Íslendingurinn, ásamt Helga Val Daníelssyni, sem lék 33 leiki með Fylki, Elfsborg og AIK, þegar taldir eru saman leikir með íslenskum og erlendum félögum.

Eiður Smári Guðjohnsen er leikjahæstur allra Íslendinga í Evrópukeppni með 64 leiki, Ásgeir Sigurvinsson er annar með 56 leiki og Arnór Guðjohnsen þriðji með 51 leik. 

Jóhann Berg Guðmundsson, sem nú leikur með enska liðinu Charlton, á flesta leiki með einu félagi. Hann lék 36 leiki með AZ Alkmaar á árunum 2010-2014. Eiður Smári Guðjohnsen lék 34 leiki með Chelsea 2000 til 2006. Atli gæti jafnað þetta met í þessari keppni, komist FH-ingar áfram í aðra umferð Evrópudeildarinnar, og slegið það ef þeir færu lengra.

Atli Guðnason deilir jafnframt markameti leikmanns fyrir íslensk lið í Evrópukeppni en hann hefur skorað 10 mörk fyrir FH á þeim vettvangi til þessa. Hann hefur jafnframt skorað flest mörk fyrir eitt íslenskt lið en Tryggvi Guðmundsson skoraði 10 mörk fyrir FH og ÍBV.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert