Dýrkeyptur miði í undanúrslitin

Lára Kristín Pedersen með boltann í leiknum í kvöld, en …
Lára Kristín Pedersen með boltann í leiknum í kvöld, en hún skoraði tvö marka Stjörnunnar. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

„Ég er nú ekki þekkt fyrir að skora mikið,“ sagði Lára Kristín Pedersen, leikmaður Stjörnunnar, í samtali við mbl.is eftir 3:2-sigur liðsins á Þór/KA í átta liða úrslitum bikarkeppni kvenna í knattspyrnu. Lára Kristín skoraði tvö mörk í fyrri hálfleik, en að honum loknum var staðan 3:0.

„Við  ætluðum að klára þetta í fyrri hálfleik en við duttum svo svolítið niður í seinni. Ég veit ekki alveg hvað gerðist þá,“ sagði Lára Kristín. Hún viðurkenndi að þegar Þór/KA hafði skorað tvö mörk og minnkað muninn hafi farið smá um hana.

„Já svolítið, en það var gott að klára þetta og komast áfram. Við ætlum okkur sjálfsögðu að verja titilinn, og Íslandsmeistaratitilinn líka,“ sagði Lára og tók undir að Íslandsmótið í ár er mun jafnara en í fyrra þar sem Stjarnan var í sérflokki og tapaði ekki leik.

Tvær fóru meiddar af velli

Það voru þó ekki bara góðar fréttir hjá Stjörnunni, því Sigrún Ella Einarsdóttir var borin sárkvalin af velli í síðari hálfleik, en áður hafði Kristrún Kristjánsdóttir farið meidd útaf.

„Sigrún meiddist á hné og er mjög kvalin. Við þurfum að láta líta á hana í rólegheitunum. Það er aldrei hægt að segja strax eftir leik hvað hefur gerst. Það verður bara að leyfa þessu að hjaðna og skoða þetta svo í rólegheitunum á morgun,“ sagði Ólafur Þór Guðbjörnsson, þjálfari Stjörnunnar, við mbl.is. Hann segir betri fréttir af Kristrúnu.

„Hún sneri sig á ökkla og er minna alvarlegt en hitt, en það er mjög slæmt að missa tvo leikmenn af velli. Þetta er alltof dýr miði í undanúrslitin,“ sagði Ólafur við mbl.is í leikslok.

Ólafur Þór Guðbjörnsson, þjálfari Stjörnunnar.
Ólafur Þór Guðbjörnsson, þjálfari Stjörnunnar. mbl.is/Ómar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert