Stjarnan stóðst áhlaupið og komst áfram

Stjarnan tryggði sér í kvöld sæti í undanúrslitum bikarkeppni kvenna í knattspyrnu eftir sigur á Þór/KA í átta liða úrslitunum í Garðabæ í kvöld, 3:2, í leik sem var heldur betur kaflaskiptur.

Það var fljótt ljóst í hvað stefndi, en strax á fjórðu mínútu skoraði Harpa Þorsteinsdóttir utan teigs þegar hún skilaði boltanum upp í fjærhornið, en hvort Harpa hafi reynt skot eða einfaldlega fyrirgjöf skal látið ósagt. Boltinn fór í netið.

Stjarnan réði ferðinni eftir markið og á 26. mínútu bætti Lára Kristín Pedersen við forystu þeirra. Ásgerður Stefanía Baldursdóttir tók þá hornspyrnu og Lára skilaði boltanum í netið eftir nokkurt klafs á teignum. Fimm mínútum fyrir lok fyrri hálfleiks skoraði Lára Kristín aftur eftir hornspyrnu Ásgerðar, en hún stangaði þá boltann í netið. 3:0 í hálfleik.

Þór/KA byrjaði síðari hálfleikinn af krafti, og að tíu mínútum liðnum var Klara Lindberg búin að minnka muninn. Hún renndi þá boltanum framhjá Söndru Sigurðardóttur eftir flottan sprett frá Kaylu Grimsley.

Þór/KA hélt áfram að pressa eftir markið og stundarfjórðungi fyrir leikslok fékk liðið vítaspyrnu þegar Grimsley þrumaði í höndina á Önnu Björk Kristjánsdóttur innan teigs. Grimsley fór sjálf á punktinn og skoraði framhjá Söndru í markinu. 3:2 og korter eftir.

Bæði lið fengu sín færi það sem eftir lifði leiks. Þór/KA sótti að jöfnunarmarkinu á meðan Stjarnan reyndi að gera út um leikinn. Ekki urðu mörkin þó fleiri, lokatölur 3:2 og bikarmeistarar Stjörnunnar eru því komnar í undanúrslitin.

Fylgst var með gangi mála í beinni lýsingu hér á mbl.is, en viðtöl birtast hér á vefnum síðar í kvöld. Nánar verður fjallað um leikinn í Morgunblaðinu með morgni.

Stjarnan 3:2 Þór/KA opna loka
90. mín. Ana Cate (Stjarnan) fær gult spjald +3. Ana Cate og Kayla Grimsley lenda saman við hliðarlínuna. Ana er spjölduð en Grimsley liggur óvíg eftir og fær aðhlynningu.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert