Fínt að fara erfiða leið í bikarnum

Óskar Örn skorar fyrsta mark leiksins í kvöld.
Óskar Örn skorar fyrsta mark leiksins í kvöld. mbl.is/Golli

Óskar Örn Hauksson, leikmaður KR, var ánægður eftir að liðið vann FH 2:1 í 8-liða úrslitum bikarkeppni karla á KR-velli í kvöld. „Mér fannst þetta góður leikur og held að þetta hafi verið nokkuð sanngjarnt,“ sagði Óskar í samtali við mbl.is eftir leik.

„Lið geta grísað á eitthvað í bikarnum en ég held að þetta sé bara merki um að við séum með gott lið og búnir að vera með gott lið undanfarin ár,“ sagði hann þegar hann var spurður um gott gengi KR í bikarnum undanfarin ár. „Við höfum yfirleitt farið erfiða leið í bikarnum og það er bara fínt og hefur gengið vel hjá okkur.“

KR spilar marga leiki þessa dagana en síðari leikur liðsins gegn Cork frá Írlandi í 1. umferð forkeppni Evrópudeildar UEFA fer fram á fimmtudag á KR-vellinum. Fyrri leikurinn í Írlandi fór 1:1 og Vesturbæingar því í ágætri stöðu. „Jafnteflið úti var gott veganesti í heimaleikinn. Við erum klárlega betra fótboltalið en það er ekkert gefið í þessu. Það er bara hálfleikur og ef við mætum eins og menn á fimmtudaginn ættum við að fara áfram.

Álagið á leikmenn er mikið þessa dagana en þeir eru vanir því. „Við hvílum okkur vel milli leikja og borðum vel og allt það. Törnin okkar er rétt að byrja en undanfarin ár hefur okkur liðið vel þegar við spilum svona marga leiki. Við viljum spila mikið og taka léttar og skemmtilegar æfingar inn á milli.“

Miðjan lét vel í sér heyra og Óskar var ánægður með það. „Það er frábært og það smitar inn í liðið og skiptir miklu máli. Við finnum fyrir þessu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert