„Okkur líður vel í bikarleikjum“

Gunnar Þór Gunnarsson er spenntur fyrir stórleik KR og FH …
Gunnar Þór Gunnarsson er spenntur fyrir stórleik KR og FH í átta liða úrslitum Borgunarbikarsins sem fram fer í kvöld. mbl.is / Eva Björk Ægisdóttir

KR mætir FH í átta liða úrslitum Borgunarbikarsins á Alvogenvellinum klukkan 20.00 í kvöld. Gunnar Þór Gunnarsson, vinstri bakvörður KR-inga, telur að leikmenn liðsins séu búnir að hrista úr sér ferðaþreytuna eftir leik KR gegn Cork City í Evrópudeildinni á fimmtudaginn var og verði klárir í slaginn í kvöld.     

„Ég er bara mjög spenntur fyrir kvöldinu, enda er þetta risaleikur. Okkur hlakkar mikið til leiksins og ætlum að halda áfram þeirri sigurhefð sem hefur verið í bikarnum undanfarin ár. Okkur líður vel í svona stórum leikjum og þegar mikið er undir. Það hefur gengið vel í bikarnum síðastliðin ár og við ætlum að halda þeirri velgengni áfram í kvöld.“ 

„Við erum búnir að hrista úr okkur ferðaþreytuna. Við ferðuðumst til baka frá Írlandi snemma á föstudagsmorgninum og tókum létta æfingu síðdegis á föstudeginum og svo æfðum við í gær. Ég held að menn séu bara orðnir ferskir og það verði engin þreyta í leiknum í kvöld. Menn eru búnir að leggja Evrópudeildina til hliðar í bili og menn aðeins að hugsa um það verkefni sem framundan er, það er að tryggja okkur sæti í undanúrslitunum.“

„Við vitum náttúrulega að FH er með mjög gott lið og þetta verður erfiður leikur í kvöld. Það sem við lærðum kannski helst af tapinu á móti þeim í deildinni er að við verðum að halda fullri einbeitingu allan tímann í leiknum. FH-ingar eru fljótir að refsa ef að þú sofnar á verðinum og við verðum að vera einbeittir frá fyrstu mínútu til þeirrar síðustu.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert