Endurkoman skilaði Val í undanúrslit

Víkingurinn Davíð Örn Atlason virðist vera með boltann límdan við …
Víkingurinn Davíð Örn Atlason virðist vera með boltann límdan við höfuðið í leiknum við Val í kvöld. mbl.is/Eva Björk

Valur tryggði sér í kvöld sæti í undanúrslitum bikarkeppni karla í knattspyrnu, Borgunarbikarsins, eftir 2:1 sigur á Víkingum þegar liðin mættust í átta liða úrslitunum í Fossvoginum í kvöld.

Valsmenn tóku yfirhöndina snemma leiks án þess þó að ná að finna leið í gegnum skipulagða vörn Víkinga. Þeir héldu boltanum ágætlega og því kom það nokkuð gegn gangi leiksins þegar heimamenn komust yfir eftir rúmlega hálftíma leik.

Eftir fyrirgjöf inn á teiginn var boltinn skallaður frá, beint fyrir fætur Andra Rúnar Bjarnasonar sem var ekki að tvínóna við hlutina heldur tók hann á lofti og smellti honum í hornið. Glæsilegt mark og Víkingar komnir í forystu. Skömmu síðar varði Thomas Nielsen meistaralega í marki Víkinga eftir skalla Thomasar Ghristensen og staðan 1:0 í hálfleik.

Síðari hálfleikur var ekki nema rétt tveggja mínútna gamall þegar Valsmenn jöfnuðu. Sigurður Egill Lárusson tók þá hornspyrnu frá hægri sem stefndi á nærstöngina og svo virðist sem Nielsen í marki Víkinga hafi ætlað að grípa boltann en misst hann í netið. Einkar klaufalegt.

Bæði lið fengu sín færi eftir þetta og Nielsen bjargaði meðal annars meistaralega frá Kristni Inga Halldórssyni þegar hann varði skot hans í stöngina. Hann kom hins vegar engum vörnum við tíu mínútum fyrir leikslok þegar varamaðurinn Ian Williamsson kom Valsmönnum yfir eftir sendingu frá Patrick Pedersen. 2:1 og tíu mínútur eftir.

Víkingar reyndu hvað þeir gátu að jafna metin undir lokin, en allt kom fyrir ekki. Lokatölur 2:1 fyrir Valsmenn og verða þeir í pottinum þegar dregið er til undanúrslita á þriðjudag.

Fylgst var með gangi mála í beinni lýsingu hér á mbl.is, en nánar verður fjallað um leikinn í átta síðna íþróttablaði Morgunblaðsins með morgni. Viðtöl birtast hér á vefnum síðar í kvöld.

Andri Rúnar Bjarnason fagnar eftir að hafa komið Víkingum yfir …
Andri Rúnar Bjarnason fagnar eftir að hafa komið Víkingum yfir í leiknum í kvöld. mbl.is/Eva Björk
Víkingur R. 1:2 Valur opna loka
90. mín. Við erum komin í uppbótartíma.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert